Skoðun

Ógnin af óheftu framsali veiðiheimilda

Björgvin G. Sigurðsson skrifar
Óhemjumiklir hagsmunir útskýra hörkuna í allri umræðu um stjórnkerfi fiskveiða og himinn og haf á milli sjónarmiða. Líkt og berlega kemur fram í kjölfar sölunnar á Bergi-Hugin til Síldarvinnslunnar. Með því gerist það sem íbúar sjávarbyggðanna óttast mest; heimildir færast úr heimahöfn í aðrar byggðir.

Sumir telja núverandi kerfi gott með óheftu framsali og leigu heimilda. Þeim fer þó fækkandi enda ekki furða þegar hinar myrkari hliðar kvótakerfisins koma fram. Líkt og óheft framsal heimilda. Þær byggðir sem standa sig þá stundina safna heimildum. Aðrar verða undir. Hinir vilja fyrna heimildir og leigja aftur út þannig að eignarhald á auðlindinni sé tryggt og opnað fyrir nýliðun.

Allt umdeilanlegar aðferðir með kostum og miklum göllum. Hagfræðin segir eitt um hagræðið en skynsemin og byggðapólitíkin allt annað.

Fyrir þessi miklu átök líður greinin í heild sinni. Við blasir að veiðistýringin hefur tekist nokkuð vel síðustu þrjá áratugi. Hóflegt gjald á nýtinguna er sjálfsagt að flestra mati og það þarf að taka af tvímæli um að eignarhaldið sé þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá. Það er mitt álit. Fyrning heimilda getur af sér óöryggi fyrir greinina og byggðirnar. Því er ekki að neita og upp kemur römm andstaða í byggðunum við þær hugmyndir. Færa má sterk rök fyrir því að nýtingarsamningur til lengri tíma sé rétta aðferðin sem færi okkur næst markmiði um réttlæti í auðlindanýtingu.

Eftir stendur spurningin um óheft framsal og leigu veiðiheimilda. Nú þegar það blasir við okkur að útgerðarmaður selur félag sitt og heimildir þess flytjast í annan landshluta hrópar þetta áleitna ágreiningsefni á okkur öll. Hvað skal gera?

Mín skoðun er sú að nú, við endurskoðun laga um stjórnkerfi fiskveiða, eigi að hefta bæði framsal og leigu veiðiheimilda. Það er réttlætismál. Líkt og lagt var til í frumvarpi sjávarútvegsráðherra í vor og verður án efa gert aftur.

Margt í því frumvarpi var gallað og átti ekki erindi í lagasafn landsins. En annað var til mikilla bóta. Líkt og ákvæði um takmarkanir á framsali heimilda og nýtingarsamningur um heimildir í stað fyrningar.

Versti þáttur kvótakerfisins og sá sem skapaði hinar hörðu deilur snýr að sölu veiðiheimilda. Á því eigum við að taka nú. Skora ég á allra flokka fólk að taka höndum saman til að stemma stigu við því fráleita fyrirkomulagi að það sé í valdi örfárra einstaklinga hverju sinni að selja veiðiheimildir í burtu frá byggðunum með þeim afleiðingum að þær geti orðið ein rjúkandi rúst.

Atvinnan farin og fasteignir verðlausar. Í þeirri áskorun undanskil ég ekki harðsnúnustu hagsmunagæslumenn óbreytt kerfis fram að þessu. Nú er lag að viðurkenna þennan afleita ágalla á gömlu kvótalögunum og bæta úr.

Komum í veg fyrir að sjávarbyggðir geti orðið eyðimörkin ein með skyndilegri sölu stórs hluta veiðiheimilda og að það sé á forræði fáeinna að hafa líf þeirra í hendi sér. Breytum lögunum í þessa veru og náum sátt um stjórn fiskveiða þannig að þessi mikilvægasta atvinnugrein landsins fái dafnað í skjóli fyrir eilífum átökum á vettvangi stjórnmálanna.




Skoðun

Sjá meira


×