Lífið

Helgi tekur upp fjórðu hestaplötuna

Helgi Björnsson er að taka upp fjórðu hestamannaplötu sína með Reiðmanna vindanna.
Helgi Björnsson er að taka upp fjórðu hestamannaplötu sína með Reiðmanna vindanna. fréttablaðið/anton
„Það var svo mikil pressa á mér úr öllum áttum,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson.

Upptökur eru hafnar á fjórðu hestamannaplötu hans en hinar þrjár hafa notið gífurlegra vinsælda og samanlagt selst í um 32 þúsund eintökum. Sú síðasta, Ég vil fara upp í sveit, seldist í um átta þúsund eintökum í fyrra.

„Þetta lá svolítið beint við. Ég ætlaði kannski að fara í sólóplötu en þurfti að fresta henni,“ segir Helgi, spurður út í plötuna. „Landsmót hestamanna verður í Reykjavík í sumar og mikið húllumhæ. Ég fékk hvatningu úr mörgum áttum um að smella einni Reiðmannaplötu í viðbót og ég varð við þeim óskum.“

Meðal laga á plötunni verða Íslenskur kindreki, sem er ný útgáfa af lagi Spilverks þjóðanna, Icelandic Cowboy. Það var höfundurinn Valgeir Guðjónsson sem samdi íslenska textann. Einnig verða þar Sunnanvindur, sem er íslensk útgáfa af Mr. Sandman, Heim í Heiðardalinn, Jörðin sem ég ann, Kvöldljóð sem Savanna tríóið söng og hið sígilda Sveitaball í hressilegri útgáfu.

Aðspurður vonast Helgi eftir góðum viðbrögðum við plötunni eins og þeim fyrri. „Það er búið að vera ótrúlegt gengi á þessum plötum, fólk virðist ekkert fá nóg. Maður fær líka alls konar tillögur frá hinum og þessum hvort ég væri til í að taka þetta lag eða hitt. Manni þykir mjög vænt um þetta.“-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.