Lífið

Hátt í tvö hundruð manns í nýstofnuðum Kiss-klúbbi

Þráinn Árni Baldvinsson, Kittý Svarfdal og Heiðar Jónsson.
Þráinn Árni Baldvinsson, Kittý Svarfdal og Heiðar Jónsson. Mynd/Stefán
„Skírteinið er á leiðinni, það er verið að framleiða það," segir Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari í Skálmöld, og einn þriggja stjórnarmanna í nýstofnuðum aðdáendaklúbbi Kiss á Íslandi.

Klúbburinn heitir Kiss Army Iceland en fjölmargir Kiss Army-klúbbar eru starfræktir víða um heim, þar á meðal í Svíþjóð, Ástralíu og Þýskalandi. Hinn upphaflegi Kiss-her var stofnaður í Bandaríkjunum árið 1975 af mönnum sem ákváðu að elta rokksveitina Kiss um Bandaríkin, rétt áður en hún sló í gegn. Síðan þá hefur klúbbnum heldur betur vaxið fiskur um hrygg.

Aðspurður segir Þráinn Árni að stofnun íslenska klúbbsins hafi verið í bígerð í mörg ár. „Svo með aðstoð Facebook stofnuðum við félagarnir Kiss Army Iceland-grúppu. Þetta byrjaði allt að blómstra í vetur og það eru komnir hátt í tvö hundruð meðlimir. Þetta gerðist á „no time"," segir hann. „Fólk er að átta sig á því hvað þetta er stórkostlegt. Margir hafa verið heima hjá sér sem skápaaðdáendur en eru komnir út núna."

Með honum í stjórninni eru Kittý Svarfdal og Heiðar Jónsson. Ársgjald í klúbbinn er tvö þúsund krónur. Handhafar skírteinis fá afslátt á ýmsum stöðum, þar á meðal í Smekkleysu og Lucky Records, á rokkbúllunni Dillon og veitingastaðnum 73. Einnig er verið að framleiða sérstaka Kiss Army Iceland-boli fyrir meðlimi klúbbsins. Hópurinn mun svo hittast reglulega til að bera saman bækur sínar og fyrsti fundurinn er fyrirhugaður á Gamla Gauk.

„Þetta verður flottasti og virkasti aðdáendaklúbbur á landinu," fullyrðir Þráinn. Sjálfur hefur hann verið í bandaríska Kiss Army-klúbbnum í mörg ár en þeir sem eru í honum geta keypt miða á Kiss-tónleika á undan öðrum. Hann er einmitt að fara ásamt Heiðari og nokkrum öðrum Íslendingum að sjá goðin á tónleikum í Ósló 30. júní, sem verða þeir einu hjá þeim í Evrópu á þessu ári.

„Kiss Army í Noregi er búinn að skipuleggja grill og hitting. Það eru aðdáendur frá níu eða tíu löndum búnir að skrá sig og við verðum þarna sem fulltrúar Íslands. Þetta verður dásamlegt, bara nördar að hittast og tala um uppáhaldið."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.