Erlent

Starfsmaður Iceland Foods vann 45 milljón pund

Cassey og Matt.
Cassey og Matt. mynd/Sky News
Ungt par í Bretlandi vann 45 milljón pund í happdrætti fyrr í vikunni. Vinningurinn kemur á heppilegum tíma enda bilaði þvottavélin þeirra fyrir stuttu.

Tilkynnt var um sigurvegara happdrættisins á blaðamannafundi í dag. Cassey Carrington og Matt Topham, bæði 22 ára gömul, stigu fram sem sigurvegarar og handhafar 7.7 milljarða íslenskra króna.

Eðlilega voru þau Cassey og Matt í skýjunum vegna vinningsins. Þau vildu lítið segja um hvað þau ætluðu að gera við nýfengin auðævi sín en sögðu þó að ný þvottavél og fartölva væri á innkaupalistanum.

Cassey vinnur sem vaktstjóri hjá verslunarkeðjunni Iceland. Unnusti hennar vinnur sem málari.

Cassey sagði að hún og Matt hafi verið í losti þegar þau fylgdust með happdrættinu. Svo undrandi voru skötuhjúin að þau þurftu að fá vin sinn til að fara yfir vinningstölurnar.

Þau gátu ekki haft samband við aðstandendur happdrættisins fyrr en daginn eftir. „Við gátum ekki farið að sofa," sagði Cassey. „við ákváðum að horfa á bíómyndir þangað til að við hringdum daginn eftir."

Brúðkaup Cassey og Matt verður haldið í september á þessu ári - þau þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að vera stórskuldug eftir giftinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×