Erlent

Venizelos fagnar nýju tækifæri

Evangelos Venizelos.
Evangelos Venizelos. Mynd/AFP
„Í fyrsta sinn í sögu landsins höfum við tækifæri á að draga verulega úr skuldum ríkisins,“ sagði Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, þegar hann kynnti niðurstöður viðræðna við helstu lánardrottna ríkisins úr einkageiranum í gærmorgun.

Niðurstaðan varð sú að nærri 86 prósent þeirra banka og vogunarsjóða, sem eiga samtals 177 milljarða evra af alls 206 milljarða heildarskuld gríska ríkisins við einkafyrirtæki, ætla að fella niður 53,5 prósent skuldanna.

Þetta þýðir að gríska stjórnin getur beitt þvingunarákvæði í lögum, sem reyndar voru sett eftir á, og fela í sér að þau fjármálafyrirtæki, sem ekki vildu vera með í skuldaniðurfellingunni, verða þvinguð til að taka þátt.

Þar með losna Grikkir á einu bretti við 107 milljarða evra af 350 milljarða heildarskuldum gríska ríkisins.

„Í dag er búið að leysa þetta vandamál,“ voru viðbrögðin frá Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, sem sagðist afar kátur með að vera laus við gríska vandann.

Aðrir hafa þó varað við of mikilli bjartsýni, og benda á að líklega þurfi Grikkir á frekari aðstoð að halda innan nokkurra mánaða: „Það eru mistök að halda að búið sé að leysa gríska vandann.“ -gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×