Erlent

Assad forseti hvetur herlið sitt til dáða

Komnir með skriðdreka sem þeir hirtu af stjórnarhernum.
Komnir með skriðdreka sem þeir hirtu af stjórnarhernum. nordicphotos/AFP
Segir örlög Sýrlands ráðast í orrustunni um Aleppo. Amnesty International fordæmir framferði stjórnarhersins og lýsir mannréttindabrotum hans í nýrri skýrslu. Öryggisráð S.Þ. hvatt til að draga Sýrland fyrir stríðsglæpadómstól.

Bashar al Assad Sýrlandsforseti segir að örlög sýrlensku þjóðarinnar ráðist í orrustunni um Aleppo. Hann hefur ekkert tjáð sig opinberlega í hálfan mánuð, en sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvetur her sinn til dáða.

Herinn hefur síðustu daga haldið uppi hörðum árásum á Aleppo, fjölmennustu borg landsins, sem uppreisnarmenn höfðu að stórum hluta náð á sitt vald.

Sausan Gaulage, talskona Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, segir að sýrlenskar herþotur hafi tekið þátt í árásunum á uppreisnarmenn.

„Í gær urðu eftirlitsmenn okkar í fyrsta sinn vitni að skothríð frá herþotum. Við höfum nú líka fengið staðfestingu á því að stjórnarandstaðan er komin með þungavopn, þar á meðal skriðdreka,“ hefur fréttastofan AP eftir henni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa miklar áhyggjur af örlögum almennings í borginni, sem verður fyrir sprengjuárásum stjórnarhersins.

Þúsundir manna flýja borgina á degi hverjum en margir komast ekki burt og ástandið í borginni versnar dag frá degi: „Fólk skortir mat, eldsneyti, vatn og gas,“ segir Gaulage.

Mannréttindasamtökin Amnesty International sendu í gær frá sér skýrslu, þar sem lýst er mannréttindabrotum stjórnarhersins í Aleppo. Þar er fullyrt að bæði stjórnarherinn og alræmdar hrottasveitir á vegum stjórnarinnar hafi ítrekað beitt skotvopnum á friðsama mótmælendur og drepið og sært bæði þátttakendur í mótmælum og aðra nærstadda, þar á meðal börn. Einnig elti þeir uppi hina særðu og líka lækna og heilbrigðisstarfsfólk sem reynt hefur að líkna þeim. Þá hafi margir þeirra sem handteknir eru verið pyntaðir og þeim ógnað með ýmsum hætti.

„Ekki kemur á óvart að lömun alþjóðasamfélagsins undanfarna 18 mánuði hefur gert það að verkum að Sýrlandsstjórn telur sig geta haldið áfram brotum sínum, þar á meðal stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni, án ótta við refsingu,“ segir Donatello Rovera hjá Amnesty International. „Ástandinu í Sýrlandi ætti tafarlaust að vísa til Alþjóðlega sakadómstólsins.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×