Skoðun

Nýtingarhlutfall – byggingarréttur

Gestur Ólafsson skrifar
Talsverð umræða um skipulagsmál hefur skapast að undanförnu í kjölfar samkeppni um hugsanlega frekari uppbyggingu við Austurvöll og Ingólfstorg. Þar hefur mönnum orðið tíðrætt um nýtingarhlutfall og hugsanlegan byggingarrétt sem hafi verið myndaður á þessu svæði og í öðrum gömlum hverfum borgarinnar.

Nú er það svo að nýtingarhlutfall er einungis ein mæliaðferð af mörgum sem m.a. hafa verið notaðar til þess að meta eða áætla hve mikið ákveðið landsvæði er nýtt (landnýting). Aðrar mælieiningar til að mæla þéttleika byggðar eru t.d. fjöldi íbúða eða íbúðarherbergja á flatareiningu.

Eitt og sér er nýtingarhlutfall ákaflega lélegt tæki til að stjórna gerð byggðar þar sem það mælir aðeins hlutfallið milli m² í byggingum og m² lóðar en segir ekkert um t.d. hæð bygginga, hugsanlega notkun eða gerð sem geta þó skipt höfuðmáli fyrir allt umhverfi á viðkomandi svæði. Samt er það eins með nýtingarhlutfallið og hnífinn í eldhússkúffunni að hægt er að nota það til margs konar verka. Þótt þessi mælieining hafi ekki verið hugsuð til þess sérstaklega að gefa ákveðnum lóðarhöfum verðmæti á kostnað gömlu hverfanna má hugsanlega nota hana til þess ef vilji er fyrir hendi.

Undanfarin ár hafa skipulagsvísindamenn borgarinnar diskað út hækkuðu nýtingarhlutfalli fyrir einstakar lóðir í gömlum hverfum Reykjavíkur sem hefur, eins og fyrir galdur, orðið að byggingarrétti sem borgaryfirvöld hafa orðið að kaupa til baka fyrir almannafé þar sem vilji hefur verið fyrir því að vernda fyrra svipmót byggðarinnar. Afleiðing þessa gæti verið sú að með þessu móti hafi verið stofnað til milljarða króna skaðabótaábyrgðar ef fólk vill nú halda í þéttleika og sérkenni þeirrar byggðar sem fyrir er.

Nú hljótum við, íbúar Reykjavíkur, að spyrja hvaða skipulagsvísindi voru þarna á ferðinni og hvaða einstaklingar bera á þeim faglega og pólitíska ábyrgð þannig að við getum a.m.k. forðast þetta fólk í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Nútímaskipulag er talsvert alvörumál og mótar ramma fyrir líf okkar allra á fjölmörgum sviðum og það skiptir okkur öll miklu að þar sé bæði talað skýrt og öll tiltæk þekking notuð. Annars kemur það bara okkur sjálfum í koll.




Skoðun

Sjá meira


×