Erlent

Vertigo valin besta kvikmynd sögunnar

Kvikmyndin Vertigo sem Alfred Hitchcock gerði árið 1958 hefur verið valin besta kvikmynd sögunnar í nýrri könnun á vegum Sight and Sound tímaritisins.

Þetta er í fyrsta sinn í 50 ár að myndin Citizen Kane eftir Orson Wells er ekki á toppi þessa lista sem tekinn er saman á tíu ára fresti. Það eru hátt í 900 kvikmyndagagnrýnendur, sérfræðingar og álitsgjafar í kvikmyndaheiminum sem standa að baki listanum hverju sinni.

Vertigo fjallar um lögreglumann á eftirlaunum sem þjáist af lofthræðslu en hann lendir í að rannsaka dularfullt mál. Í myndinni er að finna ýmsar tæknibrellur sem þóttu nýjung á sínum tíma. Með aðalhlutverkin í myndinni fara þau James Stewart og Kim Novak.

Í umfjöllun um málið á BBC kemur fram að svipað og gerðist með Citizen Kane á sínum tíma voru ekki allir sammála um að Vertigo væri meistaraverk þegar myndin var frumsýnd.

Álitið á Vertigo hefur þó stöðugt vaxið síðustu áratugina og fyrir tíu árum síðan þegar listinn var síðast tekinn saman munaði aðeins fimm atkvæðum að myndin næði að velta Citizen Kane úr fyrsta sæti listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×