Skoðun

Óvinur eða samherji?

Þröstur Ólafsson skrifar
Það er ekki uppbyggilegt að fylgjast með málflutningi andstæðinga ESB hér. Þeir fara mikinn í heilagri krossferð gegn þessu evrópska skrímsli. Manni dettur stundum í hug yfirlýsingar talíbana, þegar þeir ausa úr rétttrúnaðarskálum reiði sinnar gegn trúlausu vestrinu. Heiftin er ekki ósvipuð og orðbragðið sömu ættar. Ógerlegt er að útskýra þann útbelgda fjandskap sem birtist í málflutningi þessara vígamanna. Var það ekki Alþingi Íslendinga sem samþykkti að sækja um aðild að ESB? Það var ekki ESB sem sótti um aðild að lýðveldinu Íslandi. Icesave-deilan er ekki við ESB, heldur við tvö sjálfstæð ríki, sem eru aðilar að bandalaginu. Hún er líka við ESA, sem við rekum að hluta sjálf. Eina deilan sem ég veit til að við eigum í við ESB er makríldeilan. En við eigum líka í brýnu um sama flökkufisk við Norðmenn, sem sagðir eru óeigingjarnir vinir meðan hinir eru vondu karlarnir. Öðru vísi mér áður brá, ef Norðmenn eru orðnir vinir okkar í fiskveiðimálum. Hafa menn gleymt Smugudeilunni eða deilunni um skiptingu NÍ-síldarinnar eða bolabragða þeirra á saltfiskmörkuðum? Mér skilst það styttist í að Grænlendingar verði nýir andskotar í deilu um þennan flökkufisk.

Rangfærslur og heiftúðÞað er ofureðlilegt að skoðanir séu skiptar um ágæti ESB. Sem betur fer er einnig stór hópur fólks á móti inngöngu landsins. Slíkt er lýðræðislegt og veitir aðhald í viðræðunum og gæti örvað umræðu meðal þjóðarinnar. En til þess að svo geti orðið þarf að ræða málefnalega. Því miður ætlar það ekki takast. Umsóknin leysti úr læðingi mikla reiði hjá annars dagfarsprúðu fólki. Útúrsnúningar, rangfærslur og fjandskapur einkenna um of skrif fjölmargra andstæðinga ESB. Heift, ótti og hatur eru afleitir en jafnframt hverfulir ráðgjafar. Kannski er ástæðan sú, að reiðir menn þurfa ekki að rökræða. Þeir fullyrða. Kannski þessi viðbrögð séu óskilgreindur ótti við framtíðina. Óbreytt ástand í ört breytandi heimi er bæði svikult og skammvinnt athvarf. Einn hagstæðasti utanríkissamningur sem við höfum gert er EES-samningurinn. Hann er við ESB. Ekki vorum við þar beitt neinum rangindum eða þvingunum og tekur hann þó til u.þ.b. 80% af regluverki bandalagsins. Vissulega eru mörg atriði hins ókláraða samningshluta erfið, og sum svo, að þau geta skipt sköpum um afstöðu okkar. Það vitum við hins vegar ekki fyrr en að samningum loknum. Af mörgu vitlausu sem sagt hefur verið um aðildarviðræðurnar er það þó hámark heimskunnar að ætla okkur að taka afstöðu til samnings sem ekki liggur fyrir.

EvrópuþjóðirnarFrá Bessastöðum er komin sú frumlega söguskýring að hryggjarstykkið í ESB sé gamlar nýlenduþjóðir og til þeirra hefðum við ekkert að sækja. Það er nú svo. Eru þessar þjóðir svona óalandi og óferjandi? Stendur ekki vagga þingræðis, lýðræðis og mannréttinda einmitt hjá þessum gömlu nýlenduþjóðum? Börðust ekki þessar þjóðir fyrir frelsi og afnámi pólitískra forréttinda? Þessar þjóðir skópu eftirsóknarverð samfélög mannréttinda, jafnaðar og velmegunar, sem afgangur heimsins öfundast af. Þær hafa verið í forystu framfara og lýðfrelsis. Þetta eru þær þjóðir sem við höfum átt sögulega samfylgd með frá landnámi og bundist traustustum vina-, menningar- og viðskiptaböndum. Ísland er afsprengi evrópskrar menningar og samfélagsgerðar. Því er ekki öfugt farið.

Hvert er ferðinni heitið?Langmikilvægasta mál okkar á næstu misserum er gjaldmiðilsmálin. Það er að verða flestum ljóst að ef við höldum íslensku krónunni, leiðir það til gjaldeyrishafta til frambúðar. Hún er alltof veikburða til að standast ólgusjó frjálsra gjaldeyrisviðskipta. Hún stenst ekki minnstu stöðutöku. Frá hruni hefur verið leitað að gjaldmiðli sem hentar í staðinn. Niðurstaðan er sú að aðeins evran endurspeglar best utanríkisviðskipti okkar og er þar af leiðandi hentugust. Þar að auki fengjum við fulltrúa í bankaráði, sem vissulega hefði engin úrslitaáhrif, en tæki þátt í ákvörðunum og hefði allar upplýsingar. Aðrir gjaldmiðlar hafa hvorugt af þessu og yrðu okkur óhagstæðari. VG, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur berjast af heiftúð gegn aðild Íslands að ESB og þar með gegn upptöku evru. Málflutningur þeirra er ekki sannfærandi, því þeir benda ekki á neinn trúverðugan kost. Sjálfstæð króna er það ekki. Það er afar mikilvægt að menn fari að taka sönsum í þessu máli. Gjaldeyrishöftin skaða atvinnulífið. Fyrirtæki og einstaklingar flýja land, því nútímaviðskipti er ekki hægt að stunda undir gjaldeyrishöftum. Stærsti flokkur þjóðarinnar skuldar okkur hér svör. Það er ekki nóg að bölsótast út í höftin. Það þarf að benda á sannfærandi leið út úr þeim. Ekki flóttaleið til að forðast ESB, heldur leið sem hentar íslensku efnahagslífi best.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×