Erlent

Olíugóðærið lifir góðu lífi

Coldplay lék fyrir dansi á áramótadansleik krónprinsins Al Nahyan í Abu Dhabi.
Coldplay lék fyrir dansi á áramótadansleik krónprinsins Al Nahyan í Abu Dhabi.
Þrátt fyrir að íslensku auðjöfrarnir séu hættir að fljúga erlendum poppstjörnum til landsins eða fá þær til að heiðra sig með nærveru sinni í afmælum eru arabískir olíufurstar enn í góðum gír.

Það hefur löngum verið hefð fyrir því að moldríkir auðjöfrar fljúgi heimsþekktum poppstjörnum til sín og láti þær syngja fyrir sig og veislugesti sína. Soldáninn af Brunei ruddi brautina fyrir þessa hefð, hann hélt meðal annars upp á fimmtugsafmælið sitt með einkatónleikum Michaels Jackson og borgaði honum ríflega sautján milljónir dala. Önnur saga af honum er ekki síður fræg, en þá fékk hann Whitney Houston til að syngja fyrir sig og veislugesti sína og lét hana fá auðan tékka að launum; hún mátti sjálf fylla hann út.

Og nú eru það olíufurstarnir í Mið-Austurlöndum sem mala gull og hika ekki við að fá erlendar stórstjörnur til að skemmta sér og sínum. Breska hljómsveitin Coldplay er nýjasta hljómsveitin sem eltir gull og græna skóga til olíubarónanna og spilar fyrir litlar 1,6 milljónir dala, eða 197 milljónir íslenskra, í áramótaveislu krónprinsins Mohammed bin Zayed Al Nahyan í Abu Dhabi. Johnny Buckland, gítarleikari hljómsveitarinnar, kvaðst hlakka til tónleikanna fyrir helgi enda höfðu þeir fengið konunglegar móttökur. Til gamans má geta þess að miðaverðinu inn á skemmtunina var ekki stillt í hóf því hver miði kostaði 6.800 dali, tæplega 850 þúsund íslenskar krónur.

Coldplay-liðar eru ekki þeir einu sem hoppa á þennan gullvagn því rappararnir Kanye West og Jay-Z voru fengnir til að vera sextán ára afmælisgjöf til frænku Sheikhs Mansour, sem á meðal annars enska knattspyrnufélagið Manchester City, og fengu fyrir það 6 milljónir dala, jafnvirði 739 milljóna íslenskra króna.

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×