Innlent

Skuldir Orkuveitunnar þrettánfölduðust á átta árum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur jukust úr 17.7 milljörðum króna í upphafi árs 2002 í 224 milljarða króna í lok árs 2010 og hækkuðu því um 207 milljarða króna á tímabilinu. Þetta segir í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveitunnar sem kynnt var nú í dag. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir þetta bendi kennitölur um greiðsluhæfi til þess að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar með ágætum hætti náist langtímafjármögnun.

Í skýrslunni segir að vegna skorts á eigendastefnu hafi átt sér stað illa ígrundaðar fjárfestingar án skýrrar tengingar við grunnstarfsemi fyrirtækisins og Orkuveitan hafi fært til gjalda 8,3 milljarða króna vegna fjárfestinga í hlutabréfum. Meginhluti þeirrar fjárhæðar sé vegna viðskipta með hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja, Reykjavík Energy Invest og félaga tengdum fjarskiptastarfsemi.

„Gengisáhætta Orkuveitunnar var gríðarlega mikil, eins og sást glögg­lega þegar skuldir fyrirtækisins tvöfölduðust mælt í íslenskum krónum við gengisfall krónunnar haustið 2008 en stjórn félagsins tók ákvörðun í áhættustefnu um að fjármagna fyrirtækið með lágmörkun vaxtakostn­aðar og gengissveiflna að markmiði. Ekki var á neinn hátt tekið tillit til þessarar áhættu við mat á arðsemi fjárfestinga og var áhættunni með þeim hætti frestað til framtíðar. Einnig gerði hún fyrirtækinu kleift að greiða eigendum sínum arð, sem ekki er víst að hefði verið gerlegt ef fyrirtækið hefði verið fjármagnað í takti við tekjur þess," segir í skýrslunni

Þá segir 2006 bjó fyrirtækið við talsverða álverðsáhættu sem var á engan hátt varin. Í orkusölusamningum í tengslum við raforkusölu til stóriðju tók Orkuveitan á sig nánast alla áhættu af breytingum á heimsmarkaðsverði á áli. Orkusölusamningarnir voru jafnframt gerðir þegar álverð var mjög hátt í sögulegu samhengi. Miðað við núgildandi forsendur orkusölusamning­anna þarf álverð að haldast talsvert hærra en nú í lengri tíma til að arðsemi þeirra sé ásættanleg fyrir Orkuveituna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×