Innlent

Með nokkur kíló af amfetamíni í sjampóbrúsum

Boði Logason skrifar
Þrír pólverjar voru dæmdir í þriggja ára fangelsi í morgun fyrir innflutning á tæplega níu kílóum af amfetamíni til landsins. Verjandi segir mennina geta vel við unað enda hafi saksóknari farið fram á sex til sjö ára fangelsi.

Það var í apríl síðastliðnum sem mennirnir komu hingað til lands með flugi frá Varsjá í Póllandi. Fíkniefnahundur tollgæslunnar merkti fíkniefni á einum mannanna og við nánari skoðun reyndust tvö og hálf kíló af amfetamíni vera falið í sjampóbrúsum í töskunni. Hinir tveir höfðu farið óáreittir framhjá tollvörðum en eftir að sá fyrsti var tekinn vaknaði grunur að þeir væru einnig með fíkniefni í fórum sínum. Þeir voru stöðvaðir í leigubíl í Kópavogi stuttu síðar og reyndist sá grunur á rökum reistur - svipað magn af amfetamíni var falið í sjampóbrúsum í töskum þeirra.

Mennirnir játuðu að hafa flutt fíkniefnin til landsins en þeir hafi ekki vitað hver af öðrum og ferðin til Íslands hafi verið skipulögð af ónafngreindum mönnum. Dómari í málinu féllst á þessi rök og sagði að ekkert í málinu benti til þess að um samverknað hafi verið að ræða.

Eruð þið sáttir við þessa niðurstöðu?

„Já ég held það. Þetta mál snérist um það hvort þeir yrðu dæmdir fyrir að flytja þessi fíkniefni í einu lagi, eða hver í sínu lagi. Það gríðarlegur munur á refsingu eftir því hvor niðurstaðan verður ofan á. Hér eru þeir dæmdir fyrir að smygla þessu í sitthvoru lagi. Sem er rétt niðurstaða að ég tel, og var okkar vörn í málinu. Þannig ég held að við getum vel við unað," segir Haukur Örn Birgisson, verjandi sakbornings.

Í framburði lögreglumanns, sem handtók tvímenningana í Kópavogi, fyrir dómi kom fram að talið sé að fjórði maðurinn hafi komið með þeim til landsins með sama flugi. Hann hafi tekið leigubíl á undan þeim á sama stað í Breiðholti og hinir tveir voru á leiðinni á. Hann var hinsvegar ekki handtekinn og má því gera ráð fyrir að hann hafi náð að skila um þremur kílóum af amfetamíni, sem fóru í umferð hér á landi, af sér áður en hann hélt af landi brott.


Tengdar fréttir

Ánægðir með niðurstöðuna - hámarksrefsing 12 ár

Þrír pólskir karlmenn voru í morgun dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir innflutning á amfetamíni hingað til lands. Fíkniefnin voru falin í sjampóbrúsum en það var fíkniefnahundurinn Nelson sem kom upp um smyglið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×