Lífið

Útlendingar vilja Vini Sjonna

Vinir Sjonna eru eftirsóttir á meðal útlendinga sem koma hingað til lands.
Vinir Sjonna eru eftirsóttir á meðal útlendinga sem koma hingað til lands. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
„Við erum alltaf klárir þegar allir eru lausir," segir Pálmi Sigurhjartarson úr Vinum Sjonna.

Síðan hljómsveitin steig á svið í Düsseldorf í Þýskalandi í maí í fyrra og söng lagið Coming Home hefur hún fengið fjölda fyrirspurna erlendis frá til þeirra sem reka ferðaskrifstofur á Íslandi og halda hér ráðstefnur.

„Það hafa verið að koma hingað hópar frá Evrópu sem hafa spurt hvort þessi hópur sé ennþá starfandi og spilahæfur og hvort hægt sé að fá hann til að skemmta," segir Pálmi. „Við erum alltaf boðnir og búnir þegar við getum en við erum allir í einhverjum öðrum verkefnum líka að spila og syngja úti um allar trissur. Það er skemmtilegt að þetta atriði okkar hafi vakið athygli í Eurovision og að fólk sé að pæla aðeins í þessu."

Margar ráðstefnur fyrir erlenda aðila eru fyrirhugaðarar hérlendis í vor, þar á meðal í Hörpunni og þar munu Vinir Sjonna einmitt stíga á svið í apríl. „Þessi félagsskapur mun lifa áfram en við erum ekkert að rembast í þessu. Þessi hópur varð til eins og hann varð til og við reynum að gera hlutina vel og skemmtilega. Við erum ekki að fara að sigra heiminn en heimurinn má koma til okkar."

Næsta verkefni Vina Sjonna verður reyndar á erlendri grundu, eða á þorrablóti í Óðinsvéum í Danmörku 11. febrúar, eins Fréttablaðið hefur greint frá.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.