Skoðun

Siðlaus rányrkja vegna stundargróða

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Útflutningsaðilar lambakjöts hvetja nú bændur til að fjölga fénu um allt að helming vegna þess að síðan krónan féll þarf ekki að borga tugi milljóna með útflutningnum, eins og gert var í áratugi. Einhverjar gjaldeyristekjur skapast, sem fara þó fljótt aftur úr landi, því mikinn gjaldeyri þarf til framleiðslu á þessum afurðum: áburð, rúlluplast, vélar, eldsneyti, lyf o.s.frv. Kostnaðurinn við að framleiða þetta kjöt er miklu meiri en það sem fæst fyrir afurðirnar.

Þó eru landskemmdirnar alvarlegastar. Það er vegna aukinnar beitar, á þegar ofbeittu landinu.

Að græða upp það land sem skemmist til viðbótar er vonlaust. Við höfum varla undan eins og er.

Það er algerlega siðlaust og ótrúleg ósvífni að hvetja til þess að restin af náttúrulegum gróðri landsins fari í fóður fyrir sauðfé handa útlendingum, vegna stundargróða lítils hagsmunahóps í landbúnaðarstéttinni. Þeir hirða ágóðann, við borgum bara framleiðsluna. Þessir aðilar sem vinna að því með öllum ráðum að fá markaði fyrir kjötið í útlöndum hljóta að vera gjörsamlega samviskulausir gagnvart afleiðingunum og áhrifum gjörða sinna á landið og okkur hin sem borgum skaðann.

Ef þessar skepnur væru á ábyrgð eigenda sinna, girtar af, á þeirra eigin löndum, og án milljarðastyrkja frá okkur skattborgurum, þá gætu þeir auðvitað haft eins mikið fé og þeir gætu fóðrað, öllum öðrum að meinalausu. Þessari ábyrgðarlausu rányrkju á okkar kostnað og landsins verður að linna.

Við erum endalaust að glíma við afleiðingarnar í stað þess að koma í veg fyrir orsakirnar. Við eyðum milljörðum í að girða okkur og gróðurreiti af, frá sauðkindinni, í stað þess að girða hana af eins og allar siðaðar þjóðir hafa fyrir löngu gert. Þetta vesalings land, þekkt fyrir að vera eitt það verst farna sem þekkist, sökum búsetu, með stærstu manngerðu eyðimerkurnar, getur þá farið að græða sárin.

Vonandi vakna stjórnvöld af aldardoðanum, stíga inn í nútímann, og aflétta þessum álögum á landinu okkar. Þá getur það sjálft klætt fjallkonuna aftur í skrúðann sinn, áður en slitin nærklæðin ná ekki að skýla nekt hennar lengur.




Skoðun

Sjá meira


×