Erlent

Mannskæðasta árás frá byrjun

Stjórnin kennir hryðjuverkamönnum um árásirnar en uppreisnarmenn segja stjórnina sjálfa standa á bak við þær.
Stjórnin kennir hryðjuverkamönnum um árásirnar en uppreisnarmenn segja stjórnina sjálfa standa á bak við þær. nordicphotos/AFP
Tvær sprengjuárásir sjálfsvígsmanna kostuðu að minnsta kosti 55 manns lífið í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Nærri 400 manns eru særðir.

Þetta eru mannskæðustu ofbeldisverkin í landinu frá því uppreisnin gegn Bashar al-Assad forseta hófst snemma á síðasta ári.

Að venju kenna stjórnvöld hryðjuverkamönnum um árásirnar. Uppreisnarmenn svara síðan eins og venjulega með því að fullyrða að stjórnin sjálf hafi látið gera þessar árásir í þeim tilgangi að kasta rýrð á stjórnarandstæðinga.

Bæði stjórnarherinn og sveitir uppreisnarmanna hafa samþykkt vopnahlé, sem eftirlitsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna eiga að fylgjast með.

Samtök, sem hafa Al-Kaída að fyrirmynd, hafa undanfarið lýst ábyrgð sinni á nokkrum sprengjuárásum, sem bendir til þess að hryðjuverkamenn séu í reynd farnir að notfæra sér ástandið og blanda sér í átökin.

Robert Mood, hinn norski yfirmaður friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, sagði sýrlensku þjóðina ekki eiga skilið að þola þetta ofbeldi.

„Það mun ekki leysa nein vandamál,“ sagði hann, spurður hvort hann hefði einhver skilaboð til árásarmannanna. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×