Lífið

Útskrifa trúða frá sex til 42 ára

Listaspírur framtíðarinnar geta lært trúðsleik, stuttmyndagerð, dans og leikfangasmíð í Norðurpólnum.
Listaspírur framtíðarinnar geta lært trúðsleik, stuttmyndagerð, dans og leikfangasmíð í Norðurpólnum.
„Þannig útskrifaðist elsti trúðurinn 42 ára og sá yngsti 6 ára,“ segir Íris Stefanía Skúladóttir, einn stjórnenda Norðurpólsins og kennari á sprellfjörugu sirkus- og trúðanámskeiði sem hefst þar eftir helgi. Með þessum orðum á hún við námskeið frá sumrinu 2010 þegar tónlistarkonan Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína, tók virkan þátt í æfingum barnanna sinna.

„Hún mætti líkt og aðrir foreldrar með börnin sín en varð eftir og fylgdist með. Ég bauð henni að taka þátt í upphitunaræfingunum þar sem ég vildi ekki að henni leiddist. Úr varð að hún mætti í öll skiptin og útskrifaðist með börnunum sínum af trúðanámskeiðinu.“

Í Norðurpólnum verður trúðsleikur ekki aðeins kenndur heldur geta börn og unglingar á aldrinum 6 til 16 ára numið stuttmyndagerð, dans og smíði en á smíðanámskeiðinu fá þátttakendur að hanna og búa til draumaleikfangið sitt. Hvert námskeið stendur í fjóra tíma á dag í viku og aðeins er um eitt að ræða af hverri tegund.

„Sirkus- og trúðanámskeiðið er okkar sérgrein en með mér kennir Sigríður Eir Zophoníasdóttir sem er lærð úr dönskum trúðaskóla og nemur nú Fræði og framkvæmd í Leiklistar- og dansdeild Listaháskólans. Ég lærði svo akróbat í Svíþjóð þannig við höfum góðan grunn til að kenna leikhúsbrellur og trúðsleik. Jafnframt hafa kennarar hinna námskeiðanna góða reynslu á sínu sviði.“

Fáein pláss eru eftir og geta listaspírur framtíðarinnar skráð sig á iris@nordurpollinn.com.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.