Lífið

Semja tónlist fyrir Óskarsverðlaunahafa

Dóettinn Lady & Bird semja tónlistina við heimildamyndina Once Upon a Forest frá Bonne Pioche og Luc Jacquet en þeir unnu Óskarinn fyrir myndina March of the Penquins árið 2005.
Dóettinn Lady & Bird semja tónlistina við heimildamyndina Once Upon a Forest frá Bonne Pioche og Luc Jacquet en þeir unnu Óskarinn fyrir myndina March of the Penquins árið 2005.
„Þetta er heilmikið og spennandi verkefni,“ segir Barði Jóhannsson tónlistarmaður en sveit hans og söngkonunnar Keren Ann, Lady & Bird, mun semja tónlistina við nýja heimildarmynd Frakkans Luc Jacquet, Once Upon a Forest.

Jacquet er hvað frægastur fyrir heimildamyndina March of the Penguins sem hlaut meðal annars Óskarinn árið 2005 í flokki heimildarmynda. Tökur á nýju myndinni eru hafnar, en hún fjallar um vistkerfi regnskóganna.

„Framleiðslufyrirtækið hafði samband við okkur fyrir tveimur mánuðum síðan og bað okkur um þetta. Luc hafði þá heyrt klassíska píanótónlist sem ég gaf út á netinu í Frakklandi í fyrra sem leiddi hann áfram að Lady & Bird,“ segir Barði sem fékk að lesa handritið og heillaðist um leið. „Þetta er heimildarmynd um regnskóga en eins og hann er þekktur fyrir verður þessi heimildarmynd með ákveðinni sögu.“

Myndin verður frumsýnd haustið 2013 en henni er dreift af Disneynature. Barði á von að hann og Keren Ann hefjist handa við að semja í haust en þar sem myndin er í fullri lengd er því um mikla vinnu að ræða. Barði hefur undanfarið fengist mikið við kvikmyndatónlist og segir það ágætis jafnvægi við popptónlistina. „Ég hef rosalega gaman af því og fæ ákveðna útrás í þeirri vinnu,“ segir Barði en nóg er að gera hjá honum þessa dagana. Hann er að semja tónlist við sjónvarpsþættina Pressu 3 og heimildarmynd um tónlistarhúsið Hörpu. Svo er von á nýrri EP-plötu með Lady & Bird með haustinu. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.