Fótbolti

Redknapp: Pearce getur gleymt þvi að fá riddaragráðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuart Pearce og Harry Redknapp.
Stuart Pearce og Harry Redknapp. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, fyrrum stjóri Tottenham, hefur tjáð sig um þá ákvörðun Stuart Pearce að velja ekki David Beckham í Ólympíulandslið Breta. Hann segir Pearce geta gleymt þvi að fá riddaragráðu í framtíðinni.

„Það er enginn vafi á því að Stuart hefur valdið uppnámi meðal manna á háttsettum stöðum," sagði Harry Redknapp í viðtali í The Sun. „Þeir hefðu allir elskað að sjá Beckham í liðinu og ég er sjálfur hissa og leiður að svo sé ekki," sagði Redknapp.

„Stuart getur gleymt þvi að fá riddaragráðuna í framtíðinni en hann má fá hrós fyrir hugrekki. Hann er stjórinn og á að fá velja þá leikmenn sem hann vill," sagði Redknapp.

„David er landinu til sóma og það er ekki hægt að finna betri fyrirmynd," sagði Redknapp en Ryan Giggs, Craig Bellamy og Micah Richards voru valdir sem eldri leikmenn liðsins.

„Það komu margir frábærir eldri leikmenn til greina eins og Rio Ferdinand eða Frank Lampard sem dæmi en hann velur á endanum Richards sem komst ekki í enska landsliðið," sagði Redknapp.

„Hans stærsta vandamál verður kannski óvænt meiðsli því það kæmi mér ekki mikið á óvart ef félög myndu pressa á sína leikmenn að gera sér upp skrýtin meiðsli til að sleppa við að spila," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×