Innlent

Viðskiptabann á Íslendinga ef ekki verður samið fljótlega

Þorbjörn Þórðarson skrifar
María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
María Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, segir að ef ekki næst samkomulag í makríldeilunni fljótlega muni Evrópusambandið setja á viðskiptabann á fiskinnflutning Íslendinga og Færeyja.

Damanaki segir í viðtali við vefútgáfu breska blaðsins The Grocer, að til þessa hafi framkvæmdastjórn ESB ekki getað gripið til aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum þar sem skort hafi lagaheimildir til þess.

Ríkin hafa nú í nokkur ár átt í viðræðum við Evrópusambandið og Noreg vegna makrílveiðanna, eða síðan stofninn fór að leita norður á bóginn í stórum stíl.

Hafa leikið einleik og engan samstarfsvilja sýnt

Damanaki segir við The Grocer að Ísland og Færeyjar hafi leikið einleik og ákveðið einhliða kvóta fyrir makrílinn og engan samstarfsvilja sýnt. Ákvarðanir ríkjanna um veiðar byggist ekki á vísindalegum grunni. Hún segir að ef ekki náist samkomulag fljótlega við ríkin um lausn á makríldeilunni hafi framkvæmdastjórn ESB engan annan kost en að bregðast við.

Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins hefur haft reglugerð um viðskiptabann til umfjöllunar, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Reglugerðin veitir Evrópusambandinu heimildir til að grípa til aðgerða gagnvart ríkjum sem ekki hafa sýnt vilja til samstarfs við innleiðingu á samþykktum um hlutdeild í stofnum. Reglugerðin mun ekki aðeins heimila löndunarbann á íslensk og færeysk skip heldur einnig takmarka innflutning á sjávarafurðum frá þessum ríkjum til ríkja Evrópusambandsins.

Myndi brjóta gegn fjórfrelsinu

Fyrirhuguð reglugerð hefur legið undir gagnrýni þegar þar sem hún brjóti gegn einni af fjórum grunnstoðum EES-samningsins, reglunni um frjálsan vöruflutning.

Mikill þrýstingur hefur verið á íslenska ríkinu vegna málsins en á fimm árum, frá 2006 til 2011, hafa veiðar Íslendinga á makríl farið úr núll tonnum í 156 þúsund tonn. Veiðar Færeyinga hafa verið svipaðar, um 150 þúsund tonn í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×