Erlent

Brostið hjarta getur leitt til hjartaáfalls

Talið er að niðurstöður rannsóknarinnar tengist hinu svokallaða broddþensluheilkenni en það einkennist af bráðri skerðingu á samdráttum hjartavöðvans.
Talið er að niðurstöður rannsóknarinnar tengist hinu svokallaða broddþensluheilkenni en það einkennist af bráðri skerðingu á samdráttum hjartavöðvans. mynd/AFP
Vísindamenn hafa komist að því að harmur getur leitt til hjartaáfalls. Nýleg rannsókn gefur til kynna að þeir sem ganga í gegnum mikla sorg eru 21 sinnum líklegri til að verða fyrir hjartaáfalli stuttu eftir harmleikinn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í nýjasta tölublaði Hjartaverndarsamtaka Bandaríkjanna. Rannsóknin hefur staðið yfir í rúman áratug og tóku 2.000 einstaklingar þátt í henni en allir höfðu nýlega fengið hjartaáfall.

Af þeim 2.000 sem tóku þátt í rannsókninni sögðu 270 að þau höfðu misst foreldri, systkini, maka eða vin á síðustu sex mánuðum. Um 20 sögðust hafa misst ástvin á síðasta sólarhring.

Höfundar skýrslunnar segja að hjartaáfall sé 21 sinnum líklegra til að eiga sér stað á fyrsta degi eftir að harmleikur á sér stað. Einnig kemur fram að hjartaáfall sé sex sinnum líklegra á fyrstu dögum eftir að ástvinamissir á sér stað.

Fyrri athuganir hafa gefið til kynna að ástvinamissir sé tengdur heilsubresti en niðurstöður rannsóknarinnar eru þær fyrstu sem sýna fram á alvarlegar afleiðingar harmleiks á syrgjendur.

Talið er að niðurstöður rannsóknarinnar tengist hinu svokallaða broddþensluheilkenni en það einkennist af bráðri skerðingu á samdráttum hjartavöðvans. Vísindamenn eru ekki á einu máli um hvað orsakar heilkennið en talið er að tilfinningalegt álag sé ein helsta orsök þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×