Innlent

Sandsílastofninn á enn undir högg að sækja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sandsílaveiðar.
Sandsílaveiðar.
Ástand sandsílastofnsins er enn slakt á suður- og vesturhluta landsins samkvæmt nýrri mælingu Hafrannsóknarstofnunar. Tíu daga sandsílaleiðangri á rannsóknarskipinu Dröfn RE 35 er nýlokið. Stærð sandsílastofnsins skiptir verulegu máli fyrir lífríkið því um er að ræða eina helstu fæðu allra sjófugla, ef súla og dílaskarfur er undanskilinn.

Sjöunda sumarið í röð voru athuguð 4 svæði við landið, þ.e. Breiðafjörður, Faxaflói, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfði. Í leiðangrinum fékkst talsvert af seiðum í Faxaflóa og fengust seiði um allt rannsóknarsvæðið þar. Þetta er mesta magn af seiðum sem fengist hefur í flóanum frá því að athuganir hófust árið 2006. Ekki er hægt að segja til um hvort seiðin skila sér sem nýliðun í stofninn fyrr en á næsta ári með því að meta þá fjölda 1 árs sandsíla. Mun minna fékkst af seiðum á öðrum svæðum.

Lítið fékkst af eldra síli á öllum svæðum en þau sem fengust voru líklega flest af 2007 árganginum. Eins og í fyrra þá var þéttleiki eldra sandsílis lítill og einnig virtist útbreiðslan vera minni en áður innan hvers svæðis. Við fyrstu sýn virðist árgangurinn frá því í fyrra ekki ætla að skila nýliðun inn í stofninn sem máli skiptir.

Hafrannsóknarstofnun segir að þessar fyrstu niðurstöður séu háðar óvissu því þær eru eingöngu byggðar á lengdarmælingum á síli en ekki á aldurslesningum. Vöxtur á milli ára er breytilegur hjá síli og einnig er mikill breytileiki í lengd eftir aldri innan árs og milli svæða. Á næstu mánuðum fara fram aldursgreiningar á sýnum ársins og frekari úrvinnsla.

Niðurstöður leiðangursins gefa þó til kynna að jákvæð teikn séu á lofti í Faxaflóa vegna magns sandsílaseiða þar og verður áhugavert að sjá hvernig þeim reiðir af fyrsta árið. Hins vegar er sandsílastofninn ennþá í mikilli lægð og þessar athuganir benda til að nokkra aldurshópa vanti í stofninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×