Viðskipti innlent

Ætlaðar endurheimtir margfaldast

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri skrifaði undir svörin við spurningum nefndarmannanna fyrir hönd bankans. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Már Guðmundsson seðlabankastjóri skrifaði undir svörin við spurningum nefndarmannanna fyrir hönd bankans. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI FRéttablaðið/valli
Ætlaðar endurheimtir kröfuhafa Glitnis hafa nífaldast frá því í nóvember 2008. Hjá Landsbankanum hafa þær fimmfaldast og hjá Kaupþingi hafa þær tæplega fjórfaldast.

Þetta kemur fram í svari Seðlabanka Íslands við ýmsum spurningum nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd um stöðu útgreiðslna til kröfuhafa fallinna banka og fyrirhugaða nauðasamninga þeirra. Svörin voru afhent 21. nóvember síðastliðinn.

Þeir aðilar sem keypt hafa kröfur á bankana þrjá á eftirmarkaði hafa því margfaldað virði krafna sinna.

Aldrei keypt kröfur

Í svörum Seðlabankans, sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri skrifar undir, segir að Seðlabankinn hafi aldrei keypt kröfur á fallin fjármálafyrirtæki á svokölluðum eftirmarkaði, enda sé ekki „ljóst hvort lagaheimildir séu til þess". Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), dótturfélags hans, heldur hins vegar á miklu magni krafna í bú bankanna vegna veðlánaviðskipta sem hann stundaði, sem veitandi lausafjárfyrirgreiðslu, af miklum móð við föllnu bankana fyrir hrun. Hann er til dæmis á meðal tíu stærstu kröfuhafa Glitnis í gegnum þrotabú Sparisjóðabankans, sem var umsvifamikill í veðlánaviðskiptunum. Í lok árs 2011 voru eignir ESÍ metnar á 340,3 milljarða króna, sem var um 21 prósent af heildarefnahag Seðlabankans á þeim tíma. Því er um mikil verðmæti er að ræða.

Seðlabankinn var einnig spurður hvort hann vissi á hvaða verði kröfur á gömlu bankana voru keyptar og um hvaða upphæðir væri að ræða. Í svari hans segir að hann hafi ekki upplýsingar um á hvaða verði og í hvaða magni kröfur hafi verið keyptar. Þó megi gera ráð fyrir að kröfur hafi í sumum tilvikum margsinnis gengið kaupum og sölum. Vitað sé að viðskiptabankar séu á meðal kröfuhafa og að hlutur „svokallaðra vogunarsjóða hefur farið vaxandi".

Endurheimtir margfaldast

Síðan segir að „til hliðsjónar má þó geta þess að þegar skuldatryggingar á íslensku bankana voru gerðar upp í nóvember 2008 voru endurheimtur ótryggðra kröfuhafa afar lágt metnar (1,25% í Landsbanka Íslands, 3% í Glitni og 6,625% í Kaupþingi). Frá þeim tíma hafa verið samfelld viðskipti með kröfurnar og í dag er verð þeirra u.þ.b. 6,25% hjá Landsbanka, 27% hjá Glitni og 25,5% hjá Kaupþingi". Samkvæmt þessu hefur virði krafna á bankana margfaldast á undanförnum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×