Fótbolti

Carlos Alberto: Það færi 1-1 hjá Brasilíu 1970 og Spáni 2012

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Alberto með heimsbikarnum.
Carlos Alberto með heimsbikarnum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánverjar unnu í gær þriðja stórmótið í röð og í kjölfarið hafa margir lýst því yfir að þarna sé á ferðinni besta fótboltalandslið allra tíma. Árangur liðsins er einstakur en flestir knattspyrnuspekingar hafa staldrað við brasilíska landsliðið frá HM 1970 þegar kemur að því útnefna besta fótboltalandslið allra tíma.

Carlos Alberto var fyrirliði Brasilíumanna sem fóru illa með Ítala í úrslitaleiknum í Mexíkóborg árið 1970 alveg eins og Spánverjar gerðu í Kænugarði í gærkvöld. BBC spurði hann út í spænska landsliðið. Brasilíumenn unnu Ítali 4-1 úrslitaleik HM 1970 en Spánverjar gerðu enn betur þegar þeir unnu 4-0 sigur á Ítölum í gær.

„Fólk segir að brasilíska landsliðið frá 1970 sé besta landslið sögunnar og ér er sammála þeim," sagði Carlos Alberto við BBC.

Carlos Alberto lék sem bakvörður og skoraði eitt marka liðsins í úrslitaleiknum á HM 1970 eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Pele. Í gær var það bakvörðurinn Jordi Alba sem skoraði eitt marka spænska liðsins eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Xavi.

„Það er erfitt að segja hvort liðið myndi vinna, Brasilía 1970 og Spánn 2012. Ég segi að þessi leikur færi 1-1 því eins og við áttum ekki skilið að tapa leik árið 1970 þá eiga Spánverjar ekki skilið að tapa núna," sagði Carlos Alberto en hann er mjög hrifinn af spænska landsliðinu.

„Ég fagnaði gríðarlega hverju marki sem Spánverjarnir skoruðu á Evrópumótinu. Ég elska fótboltann sem þeir spila því ég elska að sjá bestu leikmennina gera það sem þeir kunna best," sagði Carlos Alberto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×