Lífið

"Pop-up” á tískuviku Berlínar

Hulda segir verslunina vera mikið tækifæri fyrir íslenska, grænlenska og færeyska hönnuði en Mundi og Eygló taka þátt í verkefninu.
Hulda segir verslunina vera mikið tækifæri fyrir íslenska, grænlenska og færeyska hönnuði en Mundi og Eygló taka þátt í verkefninu. Fréttablaðið/Anton
„Við erum í öllum fjölmiðlum hérna og þar hefur verið sagt að Ísland og Grænland komist með þessu á kortið í tískuheiminum," segir Hulda Rós Guðnadóttir, listrænn stjórnandi verkefnisins dottirDottir, sem er hluti af dagskrá tískuvikunnar í Berlín sem fram fer dagana 3. til 8. júlí.

Verkefnið er „pop-up" verslun sem selur íslenska, grænlenska og færeyska framúrstefnuhönnun á sviði fatahönnunar og handverks. Verslunin verður óhefðbundin en um er að ræða innsetningu eftir Huldu, sem er bæði myndlistar- og kvikmyndagerðarkona. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á hönnun fyrrnefndra Norðurlanda sem hefur ekki náð jafn langt og sænsk og dönsk fatahönnun.

Íslenskir hönnuðir verða í aðalhlutverki en hönnuðir merkjanna Munda, Eygló, Hlín Reykdal, DisDis, Hringu og Scintillu taka þátt og er þetta þeim dýrmætt tækifæri. „Það er mjög erfitt að komast inn á þýskan markað en hann er sterkastur í Evrópu. Við erum í samskiptum við fyrirtæki sem er með fjölda innkaupastjóra á sínum snærum.

Það er rosalegt fyrir hönnuðina að komast í samband við þá. Jafnframt hefur hinn ítalski Nino Cerruti, ein af goðsögnum tískuheimsins á 20. öld, boðað komu sína og ætlar að styrkja nokkra hönnuðanna," segir Helga, en þessi tískujöfur er stofnandi hátískuhússins Cerruti.

Hún bætir við að verkefnið hafi fengið mikla umfjöllun í Þýskalandi þar á meðal í Vogue, Elle, Interview, Glamour, Deutsche Zeitung og á mörgum tískubloggum. Verslunin opnar 5. júlí kl. 19 fyrir almenning og er til húsa á Torstrasse 68. -hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.