Erlent

NATO stendur með Tyrklandi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, fordæmdi í dag árás Sýrlendinga á tyrkneska orrustuþotu sem var skotinn niður í síðustu viku. Árásin var rædd á fundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel í morgun.

Tyrkir hafa mótmælt árás Sýrlendinga harðlega og lýst því yfir henni verði svarað. Mikil spenna ríkir nú á landmærum Tyrklands og Sýrlands og hafa Tyrkir aukið herstyrk sinn á svæðinu.

„Tyrkir munu að sjálfsögðu ekki falla í gildru stríðsæsingarmanna, engar áhyggjur. En við erum ekki land sem mun sitja og þegja án þess að gera nokkuð þegar ráðist er á flugvélar okkar," sagði Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.

Atlantshafsbandalagið fundaði um málið í Brussel í dag.

„Þetta er óásættanleg árás að okkar mati og við fordæmum hana. Þetta er annað dæmi um vanvirðingu stjórnvalda Sýrlands við alþjóðlegar reglur, frið og öryggi og mannlegt líf," sagði Anders Fogh Rasmussen.

Nató ætlar fylgjast náið með þróun mála.

„Bandamenn NATO munu fylgjast með þróun mála við suð-austur landamæri NATO. Og svo það sé alveg á hreinu þá er öryggi bandalagsins sameiginlegt og óskiptanlegt. Við stöndum með Tyrklandi í anda einingar."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×