Erlent

Danir fá leyfi til að setja upp sprautuherbergi fyrir fíkla

Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að leyfa bæjar- og sveitarfélögum landsins að koma á fót svokölluðum sprautuherbergjum þar sem sprautufíklar geta dælt í sig fíkniefnum.

Bæjar- og sveitarstjórnir í Danmörku hafa lengi viljað fá leyfi til að koma á fót þessum sprautuherbergjum og fjarlægja þar með sprautufíkla og allt sem þeim fylgir af götum sínum og opinberum stöðum.

Í þessum sprautuherbergjum fá sprautufíklar hreinar sprautur og nálar og annað sem fylgir neyslunni fyrir utan sjálf fíkniefnin sem yfirleitt eru heróín eða amfetamín. Herbergjunum er m.a. ætlað að koma í veg fyrir smit á sjúkdómum eins og eyðni og lifrarbólgu.

Kaupmannahöfn tók raunar nokkuð forskot á sæluna en þar hafa sjálfboðaliðar mátt reka endurbyggðan sjúkrabíl sem færanlegt sprautuherbergi allan síðasta vetur. Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa þar að auki ákveðið að byggja sérstakt varanlegt sprautuherbergi við Halmtorvert á Vesturbrú næsta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×