Erlent

Vara við siglingum með skemmtiferðaskipum á Norðurslóðum

Breska utanríkisráðneytið hefur varað breska ferðamenn við því að sigla með skemmtiferðaskipum um Norðurslóðir.

Rök ráðuneytisins eru einkum þau að skipin sigla um mjög afskekktar slóðir þar sem langt er í björgunarlið og björgunartæki ef eitthvað fer úrskeiðis. Einnig er nefnt í viðvöruninni að veður geti verið válynd á þessum slóðum þótt um sumartímann sé að ræða.

Ráðuneytið segir að af þessum sökum eigi ferðamenn sem ætla að sigla með skemmtiferðaskipum um Norðurslóðir að athuga vel feril skipstjórans um borð og annarra yfirmanna. Einnig eigi þeir að kynna sér öryggisviðbúnaðinn í þeim skipum sem þeir ætla að sigla með.

Eins og kunnugt er af fréttum er búist við metfjölda skemmtiferðaskipa til landsins í ár og mörg þessara skipa sigla síðan áfram lengra í norður, það er til Grænlands og Svalbarða.

Ferðaskrifstofur sem selja ferðir með þessum skemmtiferðaskipum í Bretlandi hafa brugist ókvæða við þessum viðvörunum ráðuneytisins, að því er segir í frétt í Daily Mail um málið. Þeir segja þær alveg út úr kortinu og benda á að ekkert óhapp hafi enn komið fyrir enda sé alls öryggis í siglingum þeirra gætt í hvívetna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×