Erlent

Stefnt að hæli í Bandaríkjunum

Chen Guangcheng flúði úr stofufangelsi í Kína og dvelst nú í sendiráði Bandaríkjanna í Peking. nordicphotos/AFP
Chen Guangcheng flúði úr stofufangelsi í Kína og dvelst nú í sendiráði Bandaríkjanna í Peking. nordicphotos/AFP
Bandarískir og kínverskir embættismenn vinna nú að samkomulagi um að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng fái hæli í Bandaríkjunum. Búist er við niðurstöðu innan skamms, að minnsta kosti áður en Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur í heimsókn til Kína síðar í vikunni.

„Þetta fer í rauninni eftir vilja Kínverja til þess að auðvelda brottflutning Chens,“ segir Bob Fu hjá mannréttindasamtökunum ChinaAid, sem hafa höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.

Chen flúði úr stofufangelsi í síðustu viku og er sagður kominn undir verndarvæng bandaríska sendiráðsins í Peking.

Í stuttu myndbandsávarpi, sem hann gerði eftir að hann flúði, minnist hann ekkert á að hann vilji fara úr landi. Þess í stað krefst hann þess að ofbeldi, sem hann segir embættismenn hafa beitt sig sjálfan og fjölskyldu sína, verði rannsakað.

Chen er sjálfmenntaður lögfræðingur, blindur frá barnsaldri, og var dæmdur í fangelsi árið 2006 eftir að hann hafði vakið athygli á nauðungarfóstureyðingum í sveitum Kína í tengslum við þá stefnu stjórnvalda að enginn megi eignast fleiri en eitt barn um ævina. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×