Innlent

Kalla eftir mati á áhrifum stjórnarskrárbreytinganna

Magnús Orri Schram og Margrét Tryggvadóttir tóku við nokkur hundruð blaðsíðna skýrslu hópsins í gær líkt og aðrir nefndarmenn. Von er á frumvarpi um nýja stjórnarskrá öðru hvoru megin við næstu helgi.
Magnús Orri Schram og Margrét Tryggvadóttir tóku við nokkur hundruð blaðsíðna skýrslu hópsins í gær líkt og aðrir nefndarmenn. Von er á frumvarpi um nýja stjórnarskrá öðru hvoru megin við næstu helgi. fréttablaðið/anton
Sérfræðinganefnd segir skorta heildstætt mat á áhrifum stjórnarráðsbreytinga. Nefndin skilaði skýrslu í gær þar sem farið var yfir lagatæknileg atriði. Von er á frumvarpi um stjórnarskrá á næstu dögum.

Sérfræðinganefnd gerir ekki veigamiklar athugasemdir við drög stjórnlagaráðs að stjórnarskrá, en nefndin skilaði skýrslu um vinnu sína í gær. Henni var falið að meta drögin út frá lagatæknilegum forsendum.

Auk lagatæknilegra ábendinga skilaði hópurinn almennum athugasemdum í skilabréfi. Þar leggur hann til að ýmis atriði verði skoðuð nánar. Á meðal þeirra er að meta áhrif breytinganna í heild sinni.

„Ekki hefur hins vegar farið fram heildstætt og skipulegt mat á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild. Það verkefni kallar á þverfaglega vinnu sem hópnum var ekki falin. Hópurinn gerir ráð fyrir að slíkt mat muni fara fram á vettvangi Alþingis en bendir að auki sérstaklega á þau atriði sem að hans mati kalla einkum á nánari skoðun,“ segir í skilabréfinu. Síðan eru fjölmörg atriði tínd til.

Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir hið þrönga umboð hópsins skýra það að engar veigamiklar athugasemdir hafi verið gerðar. Hópurinn geri tæplega 80 lagatæknilegar breytingatillögur og listi að auki upp álitamál sem þinginu beri að skoða. Nefnir hann sérstaklega heildstætt mat á áhrifum tillagnanna.

„Ég tel útilokað að ljúka þessu verki fyrir lok kjörtímabilsins, svo vel sé. Tæknilega séð getur Alþingi samþykkt frumvarp sem byggir á þessum grunni eftir nokkurra mánaða meðferð í þinginu. Ég óttast að málið fái þá ekki þá skoðun sem þörf krefur og venja er að viðhafa þegar stjórnarskrárbreytingar eiga sér stað.“

Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir vinnu hópsins mjög vandaða og gagnlega. Hún segir að nú þurfi að fara yfir ábendingar hópsins. Þær séu góðar og muni nýtast í vinnu þingsins. En hvenær á hún von á frumvarpi um nýja stjórnarskrá?

„Þetta eru svo margar síður að það tekur einhvern tíma að koma þessu í rétt horf, en vonandi í lok þessarar viku eða byrjun næstu.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×