Skoðun

Fjölbreytileiki kallar á fjölbreytt úrræði

Björk Vilhelmsdóttir og Kristín Heiða Helgadóttir skrifar
Í Reykjavík býr alls konar fólk og borgaryfirvöld fagna þeim fjölbreytileika. Sumir þurfa á miklum stuðningi samfélagsins að halda í sínu lífi, aðrir minni en öll eigum við það sameiginlegt að þurfa á velferðarþjónustu að halda á einhverjum tímapunkti í lífi okkar.

Velferðarsvið leggur áherslu á það að þegar fullorðið, sjálfráða fólk vill leita sér hjálpar hafi það val um hvar það fær þjónustu. Í þjónustu- og styrktarsamningum velferðarsviðs við þriðja aðila er sérstaklega kveðið á um að unnið skuli í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarstjórn 16. maí 2006. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á aukið samstarf við notendur þjónustunnar, auk þess sem leitað hefur verið nýrra leiða í þjónustunni, m.a. með faglegum stuðningi við þriðja aðila frá sérfræðingum þjónustumiðstöðva velferðarsviðs.

Þegar samið er við þriðja aðila er fyrst og fremst horft til þess hvort starf viðkomandi fyrirtækja, félaga eða samtaka sé virkt og skili árangri fyrir þá einstaklinga sem þangað velja að sækja sér hjálp. Þá er vert að benda á að á vegum mannréttindaráðs er starfandi starfshópur sem er ætlað að gera tillögu að skýrum ákvæðum um mannréttindi utangarðsfólks og fíkla í Reykjavík svo að tryggja megi að þjónusta við þennan hóp verði í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Tryggjum mannréttindi.Þau trúfélög og/eða lífsskoðunarfélög sem velferðarsvið styrkir hafa óskað eftir styrkjum vegna verkefna í þágu fullorðins fólks. Þessi félög vinna nauðsynlegt og mjög óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, en það þýðir ekki að þau séu hafin yfir gagnrýni eða að þau séu undanskilin aðhaldi. Þess vegna var tillögu VG um að setja á laggirnar starfshóp til að vinna reglur um samskipti velferðarsviðs við trúar- og lífsskoðunarfélög hafnað en í stað þess var samþykkt tillaga um að velferðarsvið upplýsi:

a) hvernig almennu eftirliti er háttað með félögum sem talist geta til trúfélaga og/eða lífsskoðunarfélaga og eru með þjónustu-/ styrktarsamninga við sviðið

b) og hvernig auka megi eftirfylgni vegna ákvæða í þjónustusamningum um að unnið skuli í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Meginhlutverk velferðarráðs er að vera eftirlitsaðili með þeirri þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir. Það eftirlit tökum við mjög alvarlega og munum fylgjast áfram náið með þeim árangri sem þessi þjónusta er að ná og hvernig hún er framkvæmd.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×