Erlent

Nepali minnstur í heimi - er einungis 55 sentimetrar

Lilli er flottur á því. Dangi er einungis 55 sentimetrar að hæð.
Lilli er flottur á því. Dangi er einungis 55 sentimetrar að hæð. mynd/afp
Chandra Bahadur Dangi, sjötíu og tveggja ára, Nepali hefur verið útnefndur minnsti maður í heimi en hann er einungis 55 sentimetrar að hæð. Dangi segist himinlifandi með nýja titilinn en hann segist ætla að nýta hann til þess að kynna land sitt og þjóð.

Heimsmetabók Guinness afhenti Dangi viðurkenningarskjal í dag þess efnis að hann væri smá minnsti í heimi, 54,6 sentimetrar. Hann er frá fáttækri fjölskyldu í einangruðu þorpi í Nepal og segist aldrei hafa heyrt um fjallið Mount Everest, sem er eflaust þekktasta kennileiti landsins, og þá kveðst hann ekki hafa heyrt um Heimsmetabók Guinness áður. Það var timburkaupmaður sem heimsótti bæinn hans í síðasta mánuði sem ákvað að benda heimsmetabókinni á Dangi.

Forráðamenn bókarinnar vildu hitta hann til þess að ganga úr skugga um að hann væri sá minnsti. Það var svo í dag Dangi flaug til höfuðborgarinnar og hann mældur. Það var í fyrsta skiptið sem hann fór í flugvél. „Ég er í góðu standi og ég er hamingjusamur," sagði Dangi þegar hann tók við viðurkenningarskjalinu. „Mig langar til að ferðast um heiminn og kynna land mitt og þjóð." Craig Glenday, framkvæmdastjóri Guinness, segir að það hafi verið mikil ánægja að afhenda Dangi viðurkenningarskjalið. „Ef hann er 72 ára gamall, eins og hann segist vera, þá er hann elsti maðurinn til þess að bera þennan titil."

Hann býr með bróður sínum og hefur engan áhuga á að gifta sig. Enginn veit fyrir víst hvenær hann hætti að stækka en Dangi kveðst aldrei hafa farið til læknis á ævinni. Hann á fimm bræður og tvær systur, sem eru öllu í eðlilegri stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×