Innlent

Stjórnarmenn í Eir leituðu til sérstaks saksóknara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þrír stjórnarmenn úr Eir funduðu í dag með fulltrúum sérstaks saksóknara og afhentu þeim gögn um rekstur heimilisins síðasta árið. Stefán Benediktsson, einn stjórnarmannanna, segir að þarna sé um að ræða fundargögn, gögn úr bókhaldi, minnisblöð og tölvupóstar sem rekji nokkuð vel þá atburðarrás sem stjórnarmenn hafa yfirsýn yfir síðastliðið ár.

„Við komum í stjórn i fyrra og komumst að því eftir að hafa setið rúmlega ár í stjórn að fyrirtækið er búið að vera að stefna í greiðsluþrot lengi og framkvæmdastjóri vissi það í ágúst í fyrra," segir Stefán í samtali við Vísi.

Stefán segir að fulltrúar sérstaks saksóknara hafi tekið stjórnarmönnunum vel. „Við báðum um þennan fund og það var auðfengið og við skýrðum gögnin út fyrir þeim mönnum sem við mættum þarna og afhentum þeim gögnin. þeir ætla að skoða þau nánar og síðan ætla þau bara að vera í sambandi við okkur síðar með ráðleggingar um það hvað sé best að gera," segir Stefán Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×