„Þetta voru nú vinsamleg tilmæli, en maður hlýðir alltaf forsetanum," segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, sem var rekin úr lopapeysu sem hún var klædd í á Alþingi í dag. Það þótti ekki æskilegt að vera klæddur í lopapeysu á Alþingi í dag að mati forseta Alþingis.
„Þetta byrjaði nú á því að Oddný [G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar] var rekin úr sinni peysu, hún benti þá á okkur," útskýrir Katrín, en auk hennar var Árna Johnsen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, gert að klæða sig úr sinni lopapeysu.
Katrín segist hafa verið í peysu undir, það hafi því ekki verið neinum vandkvæðum bundið að klæða sig úr hlýrri peysunni, „en Árni fór heim og náði í jakka," bætir Katrín við. Spurð hvort þeim hafi verið kalt á eftir svarar Katrín hlæjandi að það hafi nú ekki væst um þau á eftir.
En var lopapeysan íslensk?
„Já, þetta var ægilega hugguleg peysa með vestfirsku lopapeysumunstri," svarar menntamálaráðherrann sem var komin heim til sín þegar blaðamaður hafði samband við hann. „Og ég er bara í henni þar," bætir Katrín hlæjandi við.
Reglur um klæðnað þingmanna eru strangar, þó konum leyfist meira hvað það varðar. En þó er nokkuð ljóst að íslenska lopapeysan er ekki æskileg á Alþingi.
Menntamálaráðherra rekinn úr vestfirskri lopapeysu á Alþingi
