Áframhaldandi óvissa um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við vanda Íbúðalánasjóðs gætu skaðað sjóðinn. Þetta segir framkvæmdastjóri Íbúðalánsjóðs. Beðið er eftir tillögum vinnuhóps sem átti að skila niðurstöðu um síðust mánaðamót. Hætta er á að sjóðurinn verði færður niður í ruslflokk náist ekki að leysa málið fyrir áramót.
Íbúðalánasjóður glímir nú við margvíslegan vanda. Almenn útlán hafa dregist saman, vanskil hafa aukist frá hruni og eiginfjárstaða er undir lögbundnu hlutfalli.
Fram hefur komið að ríkið þarf að setja tólf til fjórtán milljarða í sjóðinn til að bæta eiginfjárstöðu hans.
Sérfræðingur hjá matsfyrirtækinu Moody's sagði í viðtali við Bloomberg fréttaveituna í síðasta mánuði að sjóðurinn yrði lækkaður niður í ruslflokk gripi íslenska ríkið ekki til aðgerða.
Hins vegar ríkir algjör óvissa um hvernig stjórnvöld hyggjast bregðast við þessum vanda.
Sérstakur vinnuhópur á vegum fjármálaráðuneytisins hefur unnið að tillögum að úrlausn og átti hann að skila niðurstöðu um síðustu mánaðamót. Sú vinna hefur hins vegar tafist en samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er von á niðurstöðu á næstu dögum.
Hópurinn er undir töluverðum þrýstingi um að klára málið áður en fjárlög fara í fyrstu umræðu á Alþingi í næstu viku.
Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánsjóðs, sagði í samtali við fréttastofu í dag að æskilegast hefði verið að þessari vinnu hefði verið lokið fyrr. Áframhaldandi óvissa skaði sjóðinn.
