Viðskipti innlent

Sjóðir Franklin Templeton eiga mikið af skuldum ríkisins

Magnús Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir er fjármála- og efnahagsráðherra, en það ráðuneyti hefur haft yfirumsjón með skuldabréfaútgáfu ríkisins á erlendum mörkuðum í fyrra og á þessu ári.
Katrín Júlíusdóttir er fjármála- og efnahagsráðherra, en það ráðuneyti hefur haft yfirumsjón með skuldabréfaútgáfu ríkisins á erlendum mörkuðum í fyrra og á þessu ári.
Sjóðir á vegum eins stærsta eignastýringarfyrirtækis heims, Franklin Templeton, eiga tæplega helming skuldabréfa sem íslenska ríkið seldi til erlendra fjárfesta í júní í fyrra, eða eign upp á 469,9 milljónir dala, jafnvirði um 60 milljarða króna. Þetta kemur fram í ítarlegu eignayfirliti Franklin Templeton sem fréttastofa hefur undir höndum. Sjóðir á vegum félagsins eiga því tæplega 47 prósent af skuldabréfaútgáfunni frá því í júní 2011.

Ríkið gaf út bréf fyrir einn milljarð dala í júní í fyrra til fimm ára, á gjalddaga 2016, og voru þau seld til breiðs hóps fagfjárfesta, samkvæmt upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í tengslum við útgáfuna. Sjóðir á vegum Franklin Templeton eru þó með næstum helminginn af öllu því sem gefið var út, eins og áður segir. Skuldabréfaútgáfan kom í framhaldi af vikulangri kynningarherferð í Bandaríkjunum og Evrópu á fyrri hluta árs 2011, en umsjón var í höndum Barclays, Citi og svissneska bankans UBS.

Skuldbréfaútgáfur ríkisins á erlendri grundu hafa margsinnis verið nefndar sem heilbrigðisvottorð fyrir íslenska hagkerfið, ekki síst af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Íslands. Fyrst fór ríkið út á markað í júní 2011, eins og áður segir, og síðan aftur í maí á þessu ári, og gat í kjölfarið endurfjármagnað skuldir og greitt til baka hluta. Þá voru gefin út skuldabréf upp á einn milljarð dala, líkt og árið 2011. Í því tilviki voru bréfin til tíu ára, með gjalddaga 2022. Samkvæmt eignayfirliti Franklin Templeton eiga sjóðir á vegum félagsins skuldabréf úr þeirri útgáfu upp á 120,9 milljónir dala, eða 15,2 milljarða dala. Það jafngildir ríflega 12 prósentum af heildarútgáfunni frá því í maí á þessu ári. Umsjón skuldabréfaútgáfunnar var í höndum Deutsche Bank, J.P. Morgan og UBS.

Franklin Templeton stýrir eignum upp á meira en 400 milljarða dala, eða sem nemur meira en 5.000 milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur ríflega þrefaldri árlegri landsframleiðslu Íslands, sem nam 1.620 milljörðum króna í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×