Innlent

Sérkennilegasta tjón næturinnar - fljúgandi pottar hið nýja trampólín

Myndina tók Ingimundur hjá systur sinni í morgun.
Myndina tók Ingimundur hjá systur sinni í morgun.
„Krakkarnir komu bara inn í svefnherbergi til foreldra sinna og spurðu hvað hefði gerst með pottinn," segir Ingimundur Sigfússon sem tók þessa mynd af heitum potti sem rifnaði upp úr stæðinu sínu í nótt heima hjá systur hans sem býr í Grafarvoginum í Reykjavík.

Sem betur fer er potturinn heill, en það er þó ljóst að einhverjar leiðslur hafi farið með pottinum. „Þetta er samt sem áður, og sem betur fer, ekki meiriháttar tjón," segir Ingimundur en líklega hefur vindurinn komist undir pottinn og feykt honum upp.

Fólk er raunar vanara fréttum af þakskífum og trampólínum á ferð og flugi í óveðrum, „ætli heitu pottarnir séu ekki hin nýju trampólin," segir Ingimundur hlæjandi, enda líklega sérkennilegasta tjón næturinnar.

Það er þó verra að sögn Ingimundar að potturinn er mikið notaður á heimilinu. Meðal annars eru börnin afar hrifin af honum. Það eru því líklega nokkur vonbrigði að fá ekki að skella sér í heitt vatnið á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×