Innlent

Verið heima - það er ekkert ferðaveður

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Fólk er hvatt til þess að halda sig heima í dag enda ekkert ferðaveður. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins fóru í nokkur útköll í gærkvöldi og í nótt, veðurofsinn er þó ekkert í líkingu við það sem landsmenn urðu vitni að í síðustu viku.

Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu segir nóttina hafa verið nokkuð rólega miðað við veðurofsa, en það dró helst til tíðinda í gær að ísbíll fór útaf á Ströndum og fóru björgunarsveitarmenn þar til aðstoðar.

Ekki reyndist unnt að koma bílnum sem hafði oltið upp á veg en bílstjóra var ekið til byggða. Seint í gærkvöldi var björgunarsveitin á Suðurnesjum síðan kölluð út þar sem þak var að rifna af húsi einu í bænum og stuttu síðar fór björgunarsveitarhópur úr Borgarfirði til aðstoðar vegfarendum á Holtavörðuheiði en þar voru aðstæður mjög slæmar.

Jónas segir veðrið vissulega vera vont en ekkert í líkingu við það sem við sáum í síðustu viku þó vindhraðinn hafi á einhverjum stöðum farið upp í svipaðar tölur. Hann hvetur fólk til þess að halda sig heima í dag, enda ekkert ferðaveður eins og fram kom í upphafi greinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×