Innlent

Of mikil áhersla lögð á málfræðireglur í íslenskukennslu

Erla Hlynsdóttir skrifar

Of mikil áhersla er lögð á málfræðireglur í íslenskukennslu, segir kennslubókahöfundur. Honum finnst engin ástæða til þess að íslenskunám sé leiðinlegt.

Íslenska málfræðifélagið átti frumvæðið að því að sérstakt málþing var haldið í dag undir yfirskriftinni: Víst er málfræði skemmtileg!

Markmiðið var að efna til umræðu um áherslur í málfræðikennslu.

Einn fyrirlesarinn sagðist hreint ekki hafa mikinn áhuga á málfræði.

„Ég er ekki að segja að málfræði sé slæm," segir Davíð Stefánsson, bókmenntafræðingur. „Ég er að segja, eins og kom fram í mörgum erindum hér í dag, það að þekkja málfræðihugtök og reglur inn og út það gerir mig ekki að betri málnotanda. Það sem gerir mig að góðum málnotanda er að tala mikið og skrifa."

Þá bendir hann á að tungumálið sé það eina sem við höfum til að hafa áhrif í samfélaginu. Hann hvetur til þess að leikur og rannsóknir séu samþættar í námið, frekar en að einblína á reglur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.