Viðskipti innlent

Krafði forystumenn um skýringar á vondum vaxtakjörum

Þorbjörn Þórðarson í Helsinki skrifar
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
Helgi Hjörvar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingisbeindi, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra Norðurlandanna á leiðtogafundinum á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í dag. Helgi, sem mælti fyrst fyrir flokkahóp jafnaðarmanna á Norðurlöndum, spurði hvers vegna Íslendingar væru að greiða miklu hærri vexti af lánum sínum frá Norðurlöndunum vegna fjármálakreppunnar en Írar væru að greiða vegna sams konar lána.

Árið 2009 fékk íslenska ríkið jafnvirði 2,5 milljarða dollara hjá Svíum, Norðmönnum, Dönum og Finnum vegna fjármálakreppunnar. Vaxtakjörin á láninu til Íslands eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 2,75 prósenta álagi. Danmörk og Svíþjóð gerðu hins vegar bæði tvíhliða lánasamninga við Írland þar sem vaxtakjörin eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 1 prósentu álagi. Gert ráð fyrir að íslenska ríkið greiði 88 milljarða í vexti í næsta ári. Hvert prósentustig í vöxtum vegur því þungt.

Skuldatryggingarálag á Íslenska ríkið nemur nú 214 punktum, en það er hundrað punktum hærra hjá Írum.

Frá þingi Norðurlandaráðs í þinghúsinu í Helsinki í dag.Vísir / ÞÞ


„Ég veit við munum ekki semja um vexti á þessu þingi, en ég spyr, getið þið velt því fyrir ykkur hvort það væri hægt að breyta skilyrðum þessara lána til Íslendinga? Fimmtán prósent af heildarútgjöldum íslenska ríkisins á fjárlögum fara í vaxtagreiðslur," sagði Helgi.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, sagði að þingið væri ekki vettvangur til að ræða vextina og svaraði ekki spurningu Helga, eyddi henni raunar og talaði almennt um lánveitingar til ríkja í fjárhagsvanda. Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Dana, svaraði henni ekki heldur.

Jyrki Katainen, forsætisráðherra Finnlands og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, sem sat fundinn í fjarveru Jens Soltenberg forsætisráðherra, sáu ekki ástæðu til að svara spurningunni enda áttu hvorki Finnar né Norðmenn aðild að lánasamningum við Íra. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×