Innlent

Nauðsynlegt að endurskoða fyrirtækjaform Orkuveitunnar

BBI skrifar
Skjáskot úr Kastljósi kvöldsins.
Skjáskot úr Kastljósi kvöldsins.
Ásu Ólafsdóttur, nefndarmaður í úttektarnefndinni um stöðu Orkuveitunnar, finnst umhugsunarvert hve litlar umræður fóru fram á Alþingi um lög um rekstur Orkuveitunnar áður en þau voru samþykkt.

Lögin voru aðeins rædd tæpa tvo sólarhringa á þingi áður en þau voru samþykkt. Það er merkilegt fyrir þær sakir að fyrirtækjaform Orkuveitunnar var frekar sérstakt og því hefði verið eðlilegt að ræða það vel. Bæði stjórn fyrirtækisins og forstjóri höfðu ákveðið frumkvæðishlutverk, sem telst mjög óvenjulegt. Í venjulegu hlutafélagi markar stjórn stefnuna og forstjóri fylgir.

Ása benti á þetta í Kastljósi kvöldsins á RÚV. Þar sagði hún einsýnt að fyrirtækjaform Orkuveitunnar þyrfti að endurskoða. „Bæði þarf að skerpa á hlutverki stjórnar gagnvart forstjóra og ákvarða betur hver á að vera tilgangur félagsins," sagði hún.

Nefndarmennirnir Margrét Pétursdóttir, Dr. Ómar H. Kristmundsson og Ása komu í Kastljósið í kvöld og fjölluðu um skýrsluna. Þau sögðu að mikilvægt væri að skýrslan yrði lesin vel enda innihéldi hún mikla sögu.

Þau sögðust ekki hafa fundið dæmi um spillingu innan Orkuveitunnar. Hins vegar var hlutverk stjórnarinnar óljóst og óskýrt. Sömuleiðis hlutverk og ábyrgð eigenda. Vegna pólitískra átaka skapaðist svigrúm fyrir stjórnendur til að taka stórar ákvarðanir sem hefðu átt að fá meiri umfjöllun meðal stjórnar og eigenda.

Þau settu spurningarmerki við það að kjörnir fulltrúar sætu í stjórn fyrirtækisins enda vildu þeir gjarna hugsa meira um eigin hagsmuni, þ.e. að ná endurkjöri, heldur en hagsmuni fyrirtækisins við reksturinn. Sem dæmi tóku þau gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar, en við stjórn fyrirtækisins hafði skapast hefð fyrir því að minnihluti stjórnar bókaði alltaf á móti gjaldskrárhækkun, burt séð frá því hvort fyrirtækið þyrfti á henni að halda eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×