Innlent

Magnús Orri um brotthvarf Róberts Marshall: Þetta var mjög óvænt

„Þetta þýðir ekki minnihlutastjórn og það kom skýrt fram á fundi okkar í morgun. Hann mun áfram styðja þessa ríkisstjórn," segir Magnús Orri.
„Þetta þýðir ekki minnihlutastjórn og það kom skýrt fram á fundi okkar í morgun. Hann mun áfram styðja þessa ríkisstjórn," segir Magnús Orri.
„Við erum búin að vera í 20 manna þingflokki í 3 ár og við höfum þurft að takast á við erfið verkefni. Samheldnin í hópnum hefur verið góð en ég óska honum alls hins besta á nýjum vettvangi - það gæti vel farið svo að við munum vinna saman áfram," segir Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun Róberts Marshall, þingmanns flokksins, að ganga til liðs við Bjarta framtíð.

„Mín skoðun er sú að þetta kom manni á óvart, þetta var mjög óvænt. Mér finnst nú mestu máli skipta, þegar maður horfir yfir þetta, að hann lýsir því yfir að hann ætli að styðja ríkisstjórnina út þetta kjörtímabil - hann hafi skuldbindingar gagnvart kjósendum flokksins. Hann var kosinn á þing fyrir hönd Samfylkingarinnar," segir Magnús.

En mun þetta þýða að þing verði rofið fyrr og blásið til kosninga? „Nei ég sé enga ástæðu til þess. Þetta þýðir ekki minnihlutastjórn og það kom skýrt fram á fundi okkar í morgun. Hann mun áfram styðja þessa ríkisstjórn."

„Ég hef ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og ganga til liðs við framboð Bjartrar framtíðar í komandi kosningum. Sú ákvörðun byggir á þeirri sannfæringu minni að rjúfa þurfi þá átakahefð sem fest hefur rætur í íslenskum stjórnmálum," sagði Róbert í yfirlýsingu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×