Innlent

Íslendingur framseldur til Danmerkur - Grunaður um fíkniefnaviðskipti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn.
Íslenskur karlmaður var í dag framseldur til Danmerkur, en hann er grunaður um að hafa móttekið allt að 1,1 kíló af amfetamíni og 20 grömm af kókaíni í Danmörku á tímabilinu 1. október 2008 til 1. desember 2009. Brot mannsins eru talin varða allt að tíu ára fangelsi.

Nafngreindur aðili hefur viðurkennt fyrir rétti í Danmörku að hafa selt hinum íslenska efnin. Sá íslenski átti að mæta fyrir dóm í febrúar 2011, en lét ekki sjá sig og var þá gefin handtökuskipun á hendur honum. Þá var hann farinn til Íslands og lét þau boð ganga frá Íslandi til Danmerkur að hann yrði ekki viðstaddur réttarhöldin í Danmörku.

Þá var farið fram á framsal yfir manninum. Dómsmálaráðuneytið kynnti honum framsalsbeiðnina í janúar síðastliðnum, en hann mótmælti henni. Var framsalsákvörðun ráðuneytisins þá kærð til Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti hana þann 5. september síðastliðinn. Sá úrskurður var síðan kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann þann 11. september.

Dönsk lögregluyfirvöld tilkynntu síðan ríkislögreglustjóra á mánudaginn að tímasetning framsalsins yrði ákveðin þegar maðurinn væri í gæslu lögreglu, til að nærvera hans væri tryggð vegna fyrirhugaðs framsals. Ríkislögreglustjóri var svo upplýstur daginn eftir að til stæði að framselja manninn í dag og var maðurinn þá handtekinn og úrskurðaður umsvifalaust í gæsluvarðhald til dagsins í dag. Maðurinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar. Hæstiréttur vísaði svo þeirri kæru frá í dag þegar búið var að framselja manninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×