Innlent

Eins árs fangelsi fyrir árásir á sambýliskonu

BBI skrifar
Karlmaður var í dag dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir að ráðast á sambýliskonu sína í tvígang. Hann var á sama tíma dæmdur fyrir nokkur umferðarlagabrot.

Ofbeldisbrotin voru bæði framin árið 2010. Í fyrra skiptið réðist maðurinn að konunni þegar hún var ólétt og gengin rúmar 27 vikur með barn þeirra. Maðurinn sló hana með flötum lófa í andlitið nokkrum sinnum. Konan hlaut við barsmíðarnar mar og bólgur víðsvegar um líkamann og legvatn byrjaði að leka.

Í síðara skiptið réðist hann að henni þar sem hún hélt á 5 daga gömlu barni þeirra. Maðurinn hrinti henni utan í glerskáp sem við það brotnaði og féll ofan á konuna og barnið. Konan hlaut mar og skrámur við byltuna.

Hæstiréttur tók fram að ekki yrði horft til framburðar barna konunnar sem urðu vitni að barsmíðunum. Ástæðan var sú að skýrsla var tekin af börnunum hjá lögreglu án þess að verjandi eða sakborningur væru viðstaddir. Börnin voru ekki látin gefa skýrslu fyrir dómi og vegna þessa þótti ekki stætt að byggja á framburði þeirra. Brot mannsins þóttu hins vegar fullsönnuð með framburði annarra vitna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×