Innlent

Fatlaðir kjósendur fá að velja sér aðstoðarmann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Fatlaðir kjósendur hafa nú með tilteknum skilyrðum sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoðar þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Lög þar um voru samþykkt á Alþingi í gær.

„Ég tel þessa lagabreytingu mikið framfaraspor til aukinna mannréttinda," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og segir málið hafa verið unnið í náinni samvinnu við Blindrafélagið - samtök blindra og sjónskertra á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands. ,,Mér þótti vænt um að heyra þau ummæli Guðmundar Magnússonar, formanns Öryrkjabandalagsins, að með þessum lögum stæðum við Íslendingar öðrum Norðurlandaþjóðum framar að þessu leyti. Það er góð einkunn," segir Ögmundur á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.

Breytingin nær einungis til kjósenda sem ekki eru færir um að árita kjörseðla á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að þeim er hönd ónothæf. Þá nær lagabreytingin einnig til sömu kjósenda sem geta ekki sjálfir með skýrum hætti tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn þennan vilja sinn og skulu þá kjörstjóri eða kjörstjórn heimila fulltrúa kjósandans að aðstoða hann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×