Innlent

Flesta ferðamenn langar aftur til Íslands

BBI skrifar
Bláa Lónið er vinsælasti ferðamannastaðurinn.
Bláa Lónið er vinsælasti ferðamannastaðurinn. Mynd/GVA
Erlendir vetrargestir hér á landi eru langflestir ánægðir með heimsókn sína og gætu almennt hugsað sér að heimsækja landið aftur. Flestir þeirra telja Bláa Lónið það eftirminnilegasta við landið og segja að styrkur ferðaþjónustunnar liggi í náttúru og landslagi.

Ferðamálastofa gerði könnun meðal erlendra ferðamanna sem heimsóttu Ísland að vetri til. Könnunin var gerð á tímabilinu september 2011 til maí 2012. 95% ferðamannana voru ánægðir með dvölina og 85% töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til landsins.

Þegar vetrargestirnir voru spurðir hvaða þrjú atriði þeim hefðu þótt minnisstæðust við Íslandsferðina nefndu flestir Bláa Lónið eða rúm 35%. Þar á eftir kom náttúran og landslag með 27,7% og í þriðja sæti sat maturinn og veitingastaðir með 19,6%.

Vetrargestirnir töldu, líkt og aðrir ferðamenn að styrkur ferðaþjónustunnar hérlendis lægi fyrst og fremst í náttúrunni, en rúm 68% nefndu þessa þætti. Þar á eftir kom þjóðin og gestrisni Íslendinga, en rúmur þriðjungur ferðamannana nefndu þennan þátt.

Könnunin náði til 4.512 einstaklinga en svarahlutfallið var 52,6%. Meðalaldur ferðamannanna var rúm 40 ár.

Hér má sjá umfjöllun um könnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×