Lífið

Greinilega nóg að gera hjá Gunnu Dís

Gunna Dís og Andri fengu sent bakkelsi frá Akureyri í upp í Efstaleiti.
Gunna Dís og Andri fengu sent bakkelsi frá Akureyri í upp í Efstaleiti. mynd/einkasafn
Fjölmiðlakonan Gunna Dís hefur greinilega nóg að gera þegar kemur að starfinu og fjölskyldunni. Lífið forvitnaðist hvernig ósköp venjulegur dagur er hjá henni.



06:45
Vekjaraklukkan á símanum hringir við lítinn fögnuð, ég teygji mig í útvarpstækið á náttborðinu mínu og kveiki á því í leit að lífsgleðinni en ég er frekar morgunfúl manneskja.

06:55 Eftir að hafa legið upp í rúmi í tíu mínútur og dæst yfir örlögum mínum er ég öll að koma til stend á fætur, knúsa stelpuna mína til að koma henni fram úr rúminu og trítla inn á bað í sturtu.

07:45 Hleyp útúm dyrnar heima með eiginmanninn og barnið í farteskinu, þakklát fyrir að hafa komist í gegnum morgunstundina stórslysalaust.

08:00 Mæti til vinnu í Efstaleitinu, sest við tölvuna og byrja að svara póstum, drekka kaffi og fínpússa þáttinn sem hefst klukkan 9:00.

09:00 Virkir morgnar fara í loftið þar sem við Andri minn spjöllum um allt og ekkert og tökum á móti frábæru fólki auk þess sem við spilum tónlist sem passar við skapið á okkur hverju sinni.

12:15 Við Andri töltum upp í mötuneyti RÚV þar sem við borðum hádegismat á mettíma, ég fæ mér alltaf súpu með eggi og brauð með smjöri nema á föstudögum þá fæ ég mér danskt smurbrauð.

12:30 – 16:00 Á fullu í vinnunni að vinna efni fyrir næstu þætti og ganga frá upptökum úr síðustu þáttum.

16:00 Ég bruna í Vesturbæinn að sækja dóttur mína hana Aðalheiði Helgu á leikskólann. Við förum yfir helstu atriði dagsins á leið okkar að sækja pabba hennar í vinnuna.

17:00 Komin heim eftir að hafa hangið í bíl á háannatíma í umferðinni í Reykjavík. Ef sá gállinn er á okkur förum við ekki beint heim heldur skellum okkur í matvöruverslun eða jafnvel fiskbúð til að kaupa eitthvað gott í kvöldmatinn.

17:30 Tek úr uppþvottavélinni og set leirtauið frá því um morguninn í vélina, labba hring um húsið og reyni að snurfusa, skil ekkert í því hvaðan allur þessi þvottur kemur í ljósi þess að við erum bara þrjú í heimili. Tala við mömmu í síma á hlaupunum.

18:00 Eftir að hafa tekið „ganga frá" maníu í hálftíma, klukkutíma kveiki ég á kertum og góðri tónlist og byrja að elda. Stelpan mín hjálpar mér oft en henni finnst fátt skemmtilegra en að saxa sveppi í smáa bita. Ég elska að elda og eyði miklum tíma í eldhúsinu og geng frá jafnóðum þannig að það sé eiginlega ekkert sem bíður mín nema melta eftir matinn.

19:00 Fjölskyldan borðar saman, gengur misvel, eftir því hvort litla er í stuði til að borða eða ekki, stundum er hún ánægð með matinn og stundum ekki, stemmingin við kvöldverðarborðið ræðst af því.

19:30 – 20:30 Ég og Aðalheiður Helga leikum okkur eða hún situr hjá mér og litar áður en við burstum tennurnar, bað fyrir svefninn er líka voða vinsælt hjá henni. Að lokum leggjumst við upp í rúm og lesum bók og biðjum bænirnar áður en hún sofnar.

20:30 -21:30 Hlamma mér í sófann fyrir framan sjónvarpið og kíki á einn þátt eða svo, ef maðurinn minn er ekki að vinna þá situr hann hjá mér og við spjöllum á meðan við horfum á sjónvarpið með öðru auganu.

21:30 Fer upp í rúm með góða bók og er iðulega sofnuð fyrir klukkan tíu á kvöldin, södd og sæl.



Virkir morgnar á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.