Innlent

Stálu skotvopnum og veltu bíl

Það var sérsveitin sem aðstoðaði heimamenn við handtökuna.
Það var sérsveitin sem aðstoðaði heimamenn við handtökuna.
Lögreglan á Sauðárkróki handtók þrjá einstaklinga í hádeginu þar sem þeir biðu eftir strætó. Fólkið hafði um nóttina stolið skotvopnum, tveimur rifflum og tveimur haglabyssum auk skotfæra, úr aðstöðuskúr Skotfélagsins Ósmanns sem er nokkuð fyrir utan bæinn.

Einstaklingarnir, sem eru stúlka og piltur á tvítugsaldrinum og svo karlmaður á þrítugsaldri, stálu bíl fyrr um nóttina sem þau notuðu til þess að keyra að skotsvæðinu. Þar brutust þau inn og hirtu skotvopnin og töluvert magn af skotfærum.

Samkvæmt Stefáni Vagni Stefánssyni, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, fór ekki betur en svo að þau veltu bílnum á leiðinni til baka, eða um fjóra kílómetra frá Sauðárkróki. Þurftu þau því að ganga til bæjarins vopnuð rifflunum og skotfærum, en þau þurftu að skilja töluvert magn af skotfærum eftir í bílnum.

Lögregluna grunaði strax hverjir væru á ferð, en eftir þeim var tekið fyrir um tveimur dögum síðan þegar þau höfðu í hótunum við bæjarbúa. Þá virðast þau hafa brotist inn í sundlaug í gærkvöldi.

Það var svo í hádeginu í dag sem lögreglan á Sauðárkróki, ásamt sérsveit ríkslögreglustjóra, sem var grá fyrir járnum, handtóku þremenningana þar sem þau biðu eftir strætó. Talið er líklegt að þau hafi þá ætlað að fara suður til Reykjavíkur og reyna að koma vopnunum í verð.

„Það sem stendur upp úr er að okkur tókst að endurheimta vopnin," segir Stefán Vagn en líklega hefði ekki spurst aftur til vopnanna hefði fólkið komist með þau til Reykjavíkur. Þannig kom lögreglan í veg fyrir að vopnin enduðu í höndunum á glæpamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×