Innlent

Hlutlægar reglur verða að gilda um fanga

BBI skrifar
Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. Mynd/GVA
Almennt verða að gilda hlutlægar reglur um fanga að mati Brynjars Níelssonar, lögmanns. Hann er því efins um verklagsreglur sem fangelsismálayfirvöld eru að útfæra til að taka á föngum sem tilheyra skipulögðum glæpasamtökum og greint var frá í fréttum Stöðvar 2. Slíkir fangar eiga til að mynda ekki að fá að afplána í opnum fangelsum.

„Að óathuguðu máli finnst mér þetta dálítið tæpt. Það þarf að skoða margt áður en eitthvað svona er framkvæmt," segir Brynjar en hefur þó trú á að Páll Winkel, fangelsismálastjóri, muni huga að öllum smáatriðum í útfærslu reglnanna.

„Fangelsismálayfirvöld geta ekki ákveðið eftir geðþótta hvernig afplánun tiltekinna fanga fer fram af því þeir telja að þeir séu hluti af gengi," segir Brynjar og bendir á að í dómsmálum sé yfirleitt ekki púðri eytt í að sanna hvort viðkomandi er meðlimur í gengi eða ekki.

Brynjar bendir á að lagagrundvöllur þurfi að vera til staðar svo hægt sé að setja slíkar verklagsreglur. Einnig þurfi að gæta að jafnræði fanga og gæta að meðalhófi. „Menn geta ekki ákveðið að bara af því viðkomandi hefur verið í einhverju Outlaws gildi bara aðrar reglur um hann en aðra sem hafa framið alveg eins brot," segir Brynjar.


Tengdar fréttir

Meðlimir skipulagðra glæpasamtaka ekki í almenn fangelsi

Fangelsismálayfirvöld ætla að taka hart á föngum sem tilheyra skipulögðum glæpasamtökum. Verið er að taka í gagnið nýjar verklagsreglur sem fela meðal annars í sér að fangar sem tilheyra slíkum samtökum fá ekki að afplána í opnum fangelsum og stífari skilyrði eru fyrir reynslulausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×