Innlent

Næg verkefni að glíma við eftir krabbameinsmeðferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Börn eru oft úthaldslítil eftir krabbameinsmeðferð og eiga þá erfitt með að einbeita sér í skóla.
Börn eru oft úthaldslítil eftir krabbameinsmeðferð og eiga þá erfitt með að einbeita sér í skóla. mynd/ getty.
Afleiðingar af krabbameinsmeðferð fyrir börn og hvernig hægt er að takast á við slíkar afleiðingar, er umfjöllunarefni fundar sem Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur boðað til í kvöld. Sigrún Þóroddsdóttir, hjúkrunarfræðingur í krabbameinsteymi Barnaspítala Hringsins, verður aðalgestur fundarins og ætlar að ræða þessi mál við félagsmenn. Hún segir að verulegur árangur hafi náðst í meðferð á undanförnum árum.

„Við erum búin að ná svo langt í að meðhöndla börn að við þurfum líka að fara að takast á við þau börn sem hafa lifað af, af því að þau verða fleiri og fleiri," segir Sigrún. Það þurfi að fara að huga að því hvað taki við eftir vel heppnaða meðferð. Sigrún segist hafa unnið mikið í samstarfi við fagfólk á öðrum Norðurlöndum. Í Svíþjóð sé mestum peningum veitt í rannsóknir og þar sé þetta viðfangsefni ofarlega á baugi.

„Eftir vel heppnaða meðferð geta fylgt vandamál, eitthvað sem getur komið upp á seinna meir," segir Sigrún og bætir við að þau geti verið af ýmsum toga. „Þetta eru náttúrlega vandamál í skóla, börnin hafa ekki alltaf sama úthald og aðrir," segir Sigrún. Hún tekur þó skýrt fram að það séu líka til fjölmargir einstaklingar sem hafi lokið krabbameinsmeðferð sem séu háskólamenntað fólk, með fjölskyldur og hafi gengið vel í lífinu.

Fundurinn er í Hlíðarsmára 14 í Kópavogi klukkan hálfátta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×