Erlent

Rekja ættir Obama til fyrsta svarta þrælsins í Bandaríkjunum

Ættfræðingar í Bandaríkjunum telja sig geta rekið ættir Barack Obama Bandaríkjaforseta allt aftur til fyrsta svarta þrælsins sem var skráður sem slíkur í Bandaríkjunum.

Uppruni Barack Obama hefur oft verið mikið deilumál í Bandaríkjunum í gegnum tíðina og sumir halda því jafnvel fram að hann sé ekki Bandaríkjamaður. Nú hefur New York Times greint frá því að ættfræðingar telja sig geta rekið ættir Obama allt aftur til þræls sem lifði í kringum árið 1640.

Obama á svartan föður og hvíta móðir og það sem er athyglisvert í þessu máli er að ættfræðingarnir segja að það sé í gegnum móðurættina sem hægt er að rekja ættir Obama til hins svarta þræls John Punch sem lifði í hinni bresku nýlendu Virginía sem nú er eitt af ríkjum Bandaríkjanna.

John Punch hóf ekki líf sitt sem þræll heldur sem vinnuhjú á bóndabæ. Hann flúði af bænum til Maryland þar sem hann náðist og var í framhaldinu dæmdur til að lifa sem þræll það sem eftir var ævinnar. Hann telst því vera fyrsti þrællinn í Bandaríkjunum sem var skráður sem slíkur í opinberum gögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×